Við sem búum í Kópavogi höfum flest heyrt söguna af því hvernig bærinn byggðist. Fólkið sem ekki hafði fjárhagslega burði eða sambönd til að fá lóð í Reykjavík fékk tækifæri í bænum okkar. Sjálf sagan ber það með sér að Kópavogur sé minni og ódýrari útgáfa af höfuðborginni.
Úthverfið Kópavogur
Á mínum yngri árum heyrði ég oft frá utanbæjarfólki að ég væri Reykvíkingur. Þegar ég leiðrétti það af barnslegu stolti komst ég fljótt að því að mörgum fannst þetta allt sama tóbakið. Kópavogur væri eins og hvert annað úthverfi. Á þessum árum fannst mér erfitt að koma orðum að því hvernig við skærum okkur frá stóra nágrannanum. Þess má geta að ég ólst upp á myrkum tímum í sögu Kópavogs – pönkið liðið undir lok, búið að loka eina bíói bæjarins og brandarinn um hvað væri grænt og félli á haustin var enn vinsæll.
Hugmyndir um Kópavog sem úthverfi heyrast enn. Stutt er síðan einn af ritstjórum Kjarnans lagði í leiðara til að Alþingi myndi einfaldlega setja lög um sameiningu Kópavogs og nágrannabæjarfélaga við Reykjavík. Þar að auki hefur Kópavogur í gegnum tíðina ekki þótt mjög „smart“, sem kom svo yndislega skýrt fram þegar Gísli Marteinn Baldursson bað á sínum tíma: „…til Guðs að einhver túristi lendi ekki í því að vera á einhverju glötuðu hóteli í Kópavogi“.
Kópavogur er ekki, og verður líklegast aldrei, sama lifandi hringiða menningar og afþreyingar sem Reykjavík er, þrátt fyrir gott menningarlíf í bænum og þá staðreynd að við erum aftur komin með bíó og Sleggjuna í kaupbæti. Kópavogur hefur hins vegar aðra ótvíræða kosti.
Fjölskyldubærinn Kópavogur
Það er engin tilviljun að frasinn: „Það er gott að búa í Kópavogi“ lifir enn góðu lífi. Þessi einfalda setning orðar helsta kost bæjarfélagsins. Samfélagið hér er fjölbreytt, en boðleiðir stuttar. Hér er þægilegt að búa. Hér eru góðir skólar, tónlistarskólar og myndlistarskóli. Fjölbreytt tómstundastarf er fyrir eldri borgara og framúrskarandi íþróttastarf hjá okkar öflugu íþróttafélögum. Þetta vitum við sem hér búum.
Margt má vitanlega færa til betri vegar, en í Kópavogi á öll stórfjölskyldan að geta haft það gott. Þetta er það bæjarfélag sem Framsókn tók þátt í að móta og við viljum standa vörð um.
Við getum því verið stolt og ánægð með bæinn okkar, þótt aðrir missi af sjarmanum. Og þótt Justinarnir sem halda risatónleika hér í bæ kalli af lífs- og sálarkröftum: „Hello Rehkjavic“ þá vitum við að Kórinn er okkar.
Helga Hauksdóttir er lögmaður og í öðru sæti á lista Framsóknarflokksins í Kópavogi fyrir komandi bæjarstjórnarkosningar.
Greinin birtist fyrst á kjarninn.is 6. maí 2018.