Categories
Greinar

Hjúkrunarheimilið verður að veruleika!

Deila grein

08/08/2022

Hjúkrunarheimilið verður að veruleika!

Áskoranir hjúkrunarheimilisins Skjólgarðs á Höfn í Hornafirði hafa verið ærnar undanfarin ár og löngu ljóst að húsnæðið er ábótavant og tímabært að ráðast í stækkun hjúkrunarheimilisins.

Undirbúningurinn hefur tekið sinn tíma og það er því mikil gleðitíðindi að nýverið tilkynnti Heilbrigðisráðherra um samþykkt tilboð í byggingu hjúkrunarheimilisins.

Öryggissjónarmið

Núverandi húsnæði Skjólgarðs uppfyllir ekki nútíma gæða kröfur sem gerðar eru til húsnæðis og aðbúnaðar á hjúkrunarheimilum. Það skiptir máli að við búum þeim, sem byggðu grunninn að því sem við byggjum framtíðina á, öruggt ævikvöld.

Framkvæmdin eru liður í átaksverkefni ríkisstjórnarinnar í að fjölga hjúkrunarrýmum um allt land og stytta bið eftir rými. Fyrirhuguð framkvæmd felur í sér nýbyggingu upp á 1.400 m² að stærð auk breytinga á núverandi byggingu sem er 880 m² að stærð og er því um 2.280m² framkvæmd að ræða. Hjúkrunarheimilið verður mikil lyftistöng fyrir sveitafélagið og eflir heilbirgðisþjónustu á svæðinu.

Samvinna ríkis og sveitarfélags

Heilbrigðisráðuneytið og Sveitarfélagið Hornafjörður standa saman að byggingu hússins og þeim breytingum sem verða gerðar á eldri hluta húsnæðisins. Miðað er við að framkvæmdir við heimilið hefjist nú þegar á haustmánuðum 2022 og það tekið í notkun árið 2024.

Áætlaður framkvæmdakostnaður vegna byggingar hjúkrunarheimilisins eru tæplega 2,5 milljarðar króna. Verkefnið er fjármagnað með þeim hætti að ríkissjóður greiðir 75,3% heildarkostnaðar og sveitarfélagið Hornafjörður 24,7%.

Sem þingmaður Suðurkjördæmis fagna ég því innilega að það sé loksins komið að þessu og þakka heilbrigðisráðherra fyrir klára málið sem jafnframt er mikið hagsmunamál fyrir Hornfirðinga.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknar í Suðurkjördæmi.

Greinin byrtist fyrst á visir.is 27. júlí 2022.