Categories
Greinar

Höggvum á hnútinn

Deila grein

25/04/2018

Höggvum á hnútinn

Þann 19. september árið 2016 var haldin mikil sýning í Kópavogi þar sem bæjarstjóri og formaður bæjarráðs undirrituðu samkomulag við heilbrigðisráðherra um uppbyggingu 64 rýma hjúkrunarheimilis í Boðaþingi. Stefnt var að því að taka heimilið í notkun seinni hluta árs 2018.

Ekkert bólar hins vegar á upphafi framkvæmdanna og er nú málið komið fyrir dómstóla og ekki sér fyrir endann á þessum vandræðagangi. Hönnun og framkvæmdir munu ekki fara af stað fyrr en eftir einhver ár ef ekkert verður aðhafst. Það hefur vantað pólitíska forystu hjá núverandi meirihluta í Kópavogi til að knýja málið áfram og algjörlega óviðunandi að tugir einstaklinga fái ekki inn á hjúkrunarheimilið við Boðaþing vegna þessa seinagangs.

Kópavogsbær á að höggva á hnútinn í þessu máli og taka yfir hönnun og framkvæmdir við hjúkrunarheimilið. Reykjavíkurborg fór slíka leið í samvinnu við Hrafnistu vegna uppbyggingar hjúkrunarheimilisins við Sléttuveg í Reykjavík. Eftir sem áður mun ríkið greiða sinn hluta af framkvæmdunum. Það er óásættanlegt að horfa upp á núverandi stöðu mála og við framsóknarmenn munum taka af skarið fáum við umboð til þess frá íbúum í Kópavogi.

Birkir Jón Jónsson, skipar 1. sæti á lista Framsóknarflokksins í Kópavogi

Baldur Þór Baldvinsson, skipar 3. sæti á lista Framsóknarflokksins í Kópavogi.