Categories
Greinar

Ábyrg, róttæk og framsækin stefnumótun til framtíðar

Deila grein

25/04/2018

Ábyrg, róttæk og framsækin stefnumótun til framtíðar

Sogkraftur þéttbýliskjarna og höfuðborga er þekktur um allan heim. Okkar verkefni á landsbyggðinni miða að því að sporna við fólksflótta til höfuðborgarinnar með því að tryggja rekstrarumhverfi hefðbundinna greina til framtíðar og auk þess að skapa aðstæður sem miða að því að auka aðdráttarafl landsbyggðarinnar sem góðum valkost fyrir einstaklinga og fyrirtæki að setjast að. Aukin fjöldi fjölskyldufólks metur Borgarbyggð sem góðan búsetukost, stundar vinnu á höfuðborgarsvæðinu og keyrir daglega á milli. Borgarbyggð er orðinn hluti af atvinnusvæði höfuðborgarinnar og nauðsynlegt að við nýtum tækifærin sem því fylgja.

Í ársreikningum sveitarfélagsins síðust ár kemur fram að framlög frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga er hundruðum milljóna meiri en áætlanir gerðu ráð fyrir sem er merki um aukin hagvöxt og góðan bata í efnahagsmálum. Skuldir ríkisjóðs hafa lækkað og efnahagsleg skilyrði hafa verið hagfelld.  Á landsvísu sjáum við að undirstöðu atvinnugreinum er að fjölga með meiri fjölbreytileika í atvinnulífinu. Tækifærin í matvælaframleiðslu hér á landi til framtíðar eru mikil með okkar sérstöðu.  Og það má gera þær væntingar til ferðaþjónustunnar að hún tryggi búsetu á ársgrunni og eigi þátt í að fjölga íbúum. Vöxtur í ferðaþjónustu hefur verið mikill síðustu ár og talið er að um 50% af hagvaxtaraukningu sé hægt að rekja til ferðaþjónustunnar og ávinningurinn er ýmiskonar en því tengjast líka áskoranir.  Forsendur fyrir því að við getum nýtt okkur þessi tækifæri eru gott samstarfs ríkis og sveitarfélaga. Það er okkur í hag að sú ríkisstjórn sem nú situr hefur skilning, þekkingu og áhuga á atvinnugreinum landsbyggðarinnar. Það er samstarfsverkefni þessara aðila að gera gangskör í tryggja lífæðar atvinnulífsins það eru samgöngur og fjarskipti. Forgangsverk í byggðastefnu samtímans verður að vera skilvirkari uppbygging 3ja fasa rafmagns og viðhald og vöxtur vegsamgangna á landsbyggðinni. Það er undirstöðu atriði til að styðja við vöxt og viðgang atvinnu og búsetu.

Verkefni okkar sem sveitarfélags er að festast ekki í fortíðinni og hræðast breytingar og áskoranir sem fylgja framtíðinni. Við þurfum metnaðarfulla skólastefnu frá leikskóla upp í framhaldsskóla sem tekur mið af þeirri þróun sem á sér stað með áherslum á að virkja hugvit og sköpun og efla tækni- og raungreinar. Við þurfum að meta hvað hefur tekist vel og hvar má gera betur.  Verum ábyrg með skýra sín og óhrædd við það að vera róttæk.

Með framsækinni stefnumótun getum við sem sveitarfélag verið í fremstu röð.

Guðveig Anna Eyglóardóttir

Höfundur er oddviti Framsóknarflokksins í sveitarstjórn Borgarbyggðar.