Categories
Greinar

Hriktir í stoðum Evrópusamstarfsins

Deila grein

17/02/2014

Hriktir í stoðum Evrópusamstarfsins

Karl GarðarssonMikil togstreita er innan Evrópu um þessar mundir. Það endurspeglaðist í ræðu Thorbjörns Jaglands, framkvæmdastjóra Evrópuráðsins, á fundi ráðsins fyrir skömmu. Þar lýsti hann yfir miklum áhyggjum af stöðu mála og hver þróunin yrði. Hann benti á að mikil ólga væri innan Evrópusambandsins, spenna milli sambandsins og annarra valdamikilla ríkja og jafnvel spenna innan Evrópuráðsins, sem samanstendur af 47 ríkjum sem eru bæði innan og utan ESB. Ástæðan er ekki síst sú að félagslegt misrétti hefur aukist til muna í aðildarríkjunum. Þá eiga öfgastefnur vaxandi fylgi að fagna og telja margir að það muni endurspeglast í kosningum til Evrópuþingsins í vor. Spyrja verður hvaða áhrif það muni mögulega hafa á Evrópusambandið á næstu árum. Óljóst er hvert sambandið stefnir og margir eru þeirrar skoðunar að evrusamstarfið geti ekki haldið nema til komi sérstakt sambandsríki Evrópu. Mikil andstaða er hins vegar við þá hugmynd innan aðildarríkjanna.

Jagland benti á að sú mikla óþolinmæði sem vart hefði orðið í Evrópu endurspeglaðist síðan í auknu kynþáttahatri og öfgaskoðunum. Minnihlutahópar ættu í vök að verjast, ný félagsleg vandamál væru að koma í ljós, og ofbeldi gegn konum og börnum hefði aukist. Þá væri peningaþvottur alþjóðlegt vandamál. Undirliggjandi væri andstaða við ríkjandi stjórnvöld vegna aukins misréttis. Fólk sættir sig ekki lengur við að sigurvegarinn hirði allt og að stórir hópar sitji eftir.

Mannréttindasáttmáli Evrópu hafi aldrei verið eins mikilvægur og nú. Á sama tíma er hins vegar nauðsynlegt að endurskoða hlutverk Mannréttindadómstóls Evrópu, þar sem þúsundir mála bíða afgreiðslu. Nauðsynlegt er að styrkja til muna lagaverk einstakra þjóða þannig að þau geti leitt til lykta flest mál sem lúta að mannréttindum. Jagland bendir á að einungis stærstu málin ættu að koma inn á borð Mannréttindadómstólsins. Taka verður undir þetta. Hlutverk Evrópuráðsins er ekki síst að standa vörð um mannréttindi og lýðræði í aðildarríkjunum. Þannig er framtíð Evrópuríkja best borgið.

 

Karl Garðarsson

(Greinin birtist í Morgunblaðinu 17. febrúar 2014.)