Categories
Greinar

Hringnum lokað

Deila grein

14/08/2019

Hringnum lokað

Fyr­ir ná­kvæm­lega 45 árum og ein­um mánuði, 14. júlí 1974, var blásið í lúðra við Skeiðar­ár­brú og hald­inn dans­leik­ur á palli fram eft­ir kvöldi. Til­efnið var vígsla brú­ar­inn­ar, en með henni var hringn­um lokað og Hring­veg­ur­inn, sem teng­ir byggðir um­hverf­is landið, form­lega opnaður. Skeiðar­ár­brú var án nokk­urs efa ein mesta sam­göngu­bót Íslend­inga fyrr og síðar. Upp frá þeim tíma gat ekk­ert hamlað greiðri för bif­reiða hring­inn í kring­um landið og vega­sam­göng­ur tóku stakka­skipt­um.

Í fram­hald­inu var fljót­lega farið að leggja bundið slitlag á þjóðvegi víðs veg­ar um landið. Nú, fjór­um ára­tug­um seinna, er tíma­bært og ánægju­legt að hafa lokið því brýna verk­efni að leggja slitlag á all­an hring­inn með nýj­um veg­arkafla um Beru­fjarðar­botn. Það kann að hljóma und­ar­lega í eyr­um margra að ekki hafi verið komið bundið slitlag á all­an hring­inn fyr­ir löngu og má tína til marg­ar ástæður fyr­ir því.

Skipt­ar skoðanir um leiðir

Þjóðvega­kerfið er viðamikið, um 13 þúsund kíló­metr­ar, og fyr­ir fá­menna þjóð kost­ar mikla fjár­muni að byggja það upp svo að upp­fylli megi lág­marks­kröf­ur. Á und­an­förn­um árum hafa fjár­mun­ir verið af enn skorn­ari skammti og for­gangs­röðun vega­fram­kvæmda verið í þágu um­ferðarör­ygg­is þar sem um­ferðin er mest. Und­ir­bún­ing­ur að þess­um lokakafla hring­veg­ar­ins á sér lang­an aðdrag­anda og má rekja til árs­ins 2007. Skipt­ar skoðanir voru um leiðir um Beru­fjarðar­botn, sem seinkaði und­ir­bún­ingi verks­ins, en niðurstaðan var þessi nýi veg­kafli sem ég held að við get­um öll verið ánægð með.

Flók­inn und­ir­bún­ing­ur

Það leiðir hug­ann að öðrum brýn­um vega­fram­kvæmd­um sem hafa dreg­ist úr hófi. Und­ir­bún­ing­ur nýrr­ar veg­línu er mun flókn­ari í dag, ferlið langt þar sem marg­ir aðilar og stofn­an­ir koma að mál­um, s.s. skipu­lags­yf­ir­völd, land­eig­end­ur og íbú­ar. Stjórn­sýslu­ferlið er því flókið og get­ur leitt af sér ófyr­ir­séðar niður­stöður með til­heyr­andi seink­un­um á sam­göngu­bót­um. Hverj­ar sem ástæðurn­ar kunna að vera koma þær nær oft­ast niður á al­menn­ingi og fyr­ir­tækj­um á svæðinu.

Ný sam­göngu­áætlun

Frá því að hringn­um var lokað hef­ur vega­kerfið batnað um­tals­vert und­an­farna ára­tugi. Mikið verk er þó óunnið sem brýnt er að hraða eins og kost­ur er. Um­ferð á veg­um hef­ur auk­ist mjög hratt á síðustu árum en vega­kerfið er víða við þol­mörk vegna um­ferðar og ber þess merki. Í stjórn­arsátt­mál­an­um var sam­mælst um stór­sókn í sam­göngu­mál­um og verður um 120 millj­örðum kr. varið úr rík­is­sjóði til fram­kvæmda á vega­kerf­inu á næstu fimm árum. Þess fyr­ir utan hef­ur verið leitað allra leiða til að hraða vega­fram­kvæmd­um enn frek­ar og mun ég leggja fram end­ur­skoðaða fimm ára sam­göngu­áætlun núna í haust á Alþingi. Þar ber hæst stærri fram­kvæmd­ir sem mætti flýta, en verða gjald­skyld­ar að þeim lokn­um. Gert er ráð fyr­ir sér­stakri jarðganga­áætl­un og er miðað við að haf­in verði hóf­leg gjald­taka til þess að standa straum af kostnaði við rekst­ur og viðhald þeirra. Þá er mark­mið að gera um­ferð á höfuðborg­ar­svæðinu skil­virk­ari og er ljóst að ríki og sveit­ar­fé­lög geta ekki borið nema að hluta til fyr­ir­huguð sam­göngu­mann­virki, um­ferðar­gjöld muni því renna til verk­efn­anna.

Næstu ár

Öryggi er sem fyrr leiðarljósið í öll­um fram­kvæmd­um og er stærsta verk­efnið að auka ör­yggi í um­ferðinni. Mark­mið til lengri tíma er að stytta vega­lengd­ir og tengja byggðir með bundnu slit­lagi, sem er eðli­legt fram­hald eft­ir að hafa lokað hringn­um. Til­gang­ur­inn er skýr; að efla at­vinnusvæði og bú­setu um land allt til að Ísland verði í fremstu röð með trausta og ör­ugga innviði og öfl­ug sveit­ar­fé­lög.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 14. ágúst 2019.