Categories
Greinar

Húsnæðismál í stafni hjá Framsókn

Deila grein

09/09/2021

Húsnæðismál í stafni hjá Framsókn

Það er staðreynd að stöðnun hefur ríkt í húsnæðismálum víða um land, fyrir utan vaxtarsvæði á suðvesturhorninu, það sem af er þessari öld. Húsnæðisskortur er víða og lágt fasteignaverð hefur fælt fólk frá því að byggja sér húsnæði og þá fer óheillaboltinn að rúlla. Húsnæðisskortur hamlar annarri uppbyggingu eins og í atvinnulífi og það veldur svo sveitarfélögum erfiðleikum að byggja upp innviði sem þarf til að standa undir nauðsynlegri þjónustu og boltinn rúllar. Niðurstaðan er að það vantar alls staðar húsnæði til að eðlileg framþróun eigi sér stað. Á síðasta kjörtímabili hefur þetta smátt og smátt verið að snúast til betri vegar með lausnum sem eflir húsnæðismarkaðinn á landsbyggðinni. Ásmundur Einar félags- og barnamálaráðherra hefur staðið þar í stafni í ráðuneyti húsnæðismála. Það er því mikilvægt að áfram verði unnið að þessum málefnum með festu á komandi kjörtímabilum.

Sveigjanleiki í húsnæðismálum

Ekki gilda sömu viðmið um fasteignamarkað á stór-höfuðborgarsvæðinu og á köldum svæðum. Sveigjanleiki í kerfinu verður að vera til staðar til að koma til móts við sérstakar aðstæður þar. Lykillinn að góðri niðurstöðu í húsnæðismálum er samvinna milli Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, sveitarfélaga, byggingafyrirtækja og fjármálastofnana. Gagnrýni á úrræðið hefur ekki síst snúið að því að fjármálastofnanir hafa verið tregar til að lána fyrir íbúðakaupum á köldum svæðum. Úrræði sem félags- og barnamálaráðherra hefur ráðist í á landsbyggðinni svarar þeirri gagnrýni málefnalega. Sérstakur lánaflokkur hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, bæði til íbúðarkaupa og framkvæmda, hefur nú þegar nýst í nokkrum sveitarfélögum.

Stofnframlög HMS hafa nýst sveitarfélögum til framkvæmda. Við getum litið til Bolungarvíkur í því sambandi, þar er sveitarfélagið að standsetja 15 íbúðir í húsnæði sem sveitarfélagið átti og var skrifstofuhúsnæði. Þetta er stærsta fasteignaframkvæmd sem hefur verið ráðist í, í Bolungarvík í 30 ár en þar hefur algjör stöðnun ríkt í uppbyggingu húsnæðis á þeim tíma.

Hlutdeildarlánin virka

Lög um hlutdeildarlán voru samþykkt á Alþingi á síðasta ári og var undirrituð framsögumaður á málinu í gegnum Velferðarnefnd. Um er að ræða nýjan lánaflokk til kaupa á húsnæði. Hlutdeildarlánin eru tegund lána sem veitt eru með þeim skilmálum að lánað er til tiltekins hlutfalls af verði íbúðarhúsnæðis við fasteignakaup. Þarna opnast gluggi fyrir ungt fólk að kaupa sér sitt eigið húsnæði. Með því að beina hlutdeildarlánum að hagkvæmum nýbyggingum, skapast aukinn hvati til þess að byggja í hinum dreifðu byggðum. Þetta úrræði hefur nýst gríðarlega vel og mikil eftirspurn hefur verið eftir þessu úrræði um allt land. Framsókn vill útfæra hlutdeildarlán fyrir fleiri hópa en fyrstu kaupendur. Þá er sérstaklega horft til eldra fólks og félagslegra veikra hópa í samfélaginu.

Framsókn til framtíðar

Það má finna yfirlit yfir aðgerðir stjórnvalda til húsnæðismála inn á vefnum tryggð byggð sem er samstarfsvettvangur um húsnæðisuppbyggingu á landsbyggðinni. Framsókn vill vinna áfram með samvinnu og samtal að leiðarljósi milli Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, sveitarfélaga, byggingafyrirtækja og fjármálastofnana. Framsókn talar fyrir því að skipulags- og húsnæðismál séu í sama ráðuneyti til að auka skilvirkni þegar kemur að skipulagsmálum sveitarfélaga. Með því má stytta tímann sem þau taka, gera sveitarfélögum kleift að bregðast fyrr við lóðaskorti og tryggja nægilegt framboð af lóðum til húsbygginga á hverjum tíma.

Uppbygging á landsbyggðinni hefst með skóflustungu að heimili fyrir fólk sem vill lifa og starfa á landsbyggðinni.

Halla Signý Kristjánsdóttir

Höf. er þingmaður Framsóknar og er í framboði fyrir flokkinn í NV kjördæmi.

Greinin birtist fyrst á skessuhorn.is 6. september 2021.