Categories
Greinar

Hvað gerir þú á daginn?

Deila grein

13/12/2013

Hvað gerir þú á daginn?

Silja Dögg Gunnarsdóttir-„Ég starfa sem Alþingismaður.“

-„Já, já. En eruð þið bara ekki að rífast í þingsal alla daga? Er þetta ekki hundleiðinlegt?“

Svona spurningar fær nýr þingmaður gjarnan. Það má segja að gjá hafi myndast milli þings og þjóðar og þá á ég við að það virðist óljóst í hverju starf þingsmannsins felst. Þessi greinarstúfur er veikburða tilraun til að hefja brúarsmíði yfir gjána.

Venjulegur dagur

En hvað varðar dagleg störf þingmannsins þá er kannski enginn dagur venjulegur. Starfið er mjög erilsamt en yfirleitt gefandi og ánægjulegt. Svo ég taki bara dæmi af venjulegum þriðjudegi þá hófst dagurinn með nefndarfundi kl.9 og þeim fundi lauk kl.12. Á nefndarfundum hittum við fulltrúa ráðuneyta, sveitarfélaga og ýmissa hagsmunahópa sem vegna mála sem eru til umræðu á þingi.  Að fundi loknum kom ég mér fyrir á skrifstofunni og skrifaði ræðu fyrir þingfundinn sem hófst kl.13:30. Á þingfundinum var lífleg og málefnaleg umræða, m.a. um sæstreng og almannatryggingar. Enginn að rífast og enginn með dónaskap. Fólk skiptist á skoðunum í mesta bróðerni. Um fimmleytið fór ég aftur á skrifstofuna og lauk við að undirbúa þingmál sem ég mun flytja á morgun.

Á venjulegum degi þá svara ég tölvupósti inn á milli og les mig í gegnum skýrslur og ýmsar upplýsingar sem nauðsynlegar eru fyrir umræðuna hverju sinni. Ég fæ talsvert af beiðnum frá fólki sem vill hitta mig, sem er mjög jákvætt, og þá reyni ég að finna tíma í stundaskránni fyrir slíka fundi. Einnig er ætlast til að þingmenn mæti á vissa viðburði í kjördæminu, sem er bæði sjálfsagt og skemmtilegt. Enda byggist starf stjórnmálamannsins fyrst og fremst á að rækta tengsl við fólk og miðla upplýsingum frá þeim til Alþingis og öfugt.

Nú er klukkan rúmlega níu um kvöld og ég er að hugsa um að leggja af stað heim á leið innan skamms, þ.e. þegar ég hef lokið við að skrifa þessa grein. En það er ekki nóg að funda, tala og lesa, það verður að framkvæma og skila árangri. Ég mun því skrifa aðra grein þar sem ég geri stuttlega grein fyrir störfum þingsins. Framhald fljótlega.

 

Silja Dögg Gunnarsdóttir