Há verðbólga er ein helsta áskorun flestra hagkerfa heims um þessar mundir. Ástæður hennar er einna helst að finna í nauðsynlegum efnahagsaðgerðum vegna Covid-heimsfaraldursins, óafsakanlegri innrás Rússlands inn í Úkraínu og sumpart í hinni alþjóðlegu peningastefnu frá 2008. Verðbólga víða í Evrópu birtist ekki síst í himinháu orkuverði sem er farið að sliga fjárhag fjölskyldna og fyrirtækja í álfunni. Stjórnvöld í ýmsum löndum hafa þegar tilkynnt um aðgerðapakka til þess að dempa áhrif þessara hækkana, til dæmis með lánalínum, beingreiðslum til heimila og hvalrekasköttum á orkufyrirtæki til þess að fjármagna mótvægisaðgerðir.
Ísland hefur ekki farið varhluta af alþjóðlegri verðbólgu en spár hérlendis gera áfram ráð fyrir hárri verðbólgu, þrátt fyrir að hún hafi minnkað örlítið í síðasta mánuði er hún mældist 9,7%. Stór stýribreyta í þróun hennar hérlendis er mikil hækkun á húsnæðisverði ásamt mikilli einkaneyslu. Það er gömul saga en ekki ný að langtímaáhrif verðbólgu eru slæm fyrir samfélög. Þau, sem hafa minnst milli handanna, eru berskjölduðust fyrir áhrifum hennar, sem og fjölskyldur sem hafa nýlega fjárfest í eigin húsnæði og sjá húsnæðislán sín hækka verulega í kjölfar vaxtahækkana. Það er mikilvægt að styðja við þessa hópa.
Í sögulegu samhengi hefur verðbólga átt sinn þátt í heimssögulegum atburðum. Þannig átti hækkandi verð á hveiti og korni til að mynda sinn þátt í falli kommúnismans í Sovétríkjunum 1989. Fræðimenn hafa rýnt í samhengið á milli hærra matvælaverðs og óstöðugleika í ýmsum ríkjum. Þannig sýndi til dæmis hagfræðingurinn Marc Bellemare, prófessor við Háskólann í Minnesota, fram á sterk tengsl milli ófriðar og matvælaverðs í hinum ýmsu löndum á árunum 1990-2011.
Ísland er að mörgu leyti í sterkri stöðu til þess að takast á við háa verðbólgu. Undirliggjandi staða þjóðarbúsins er sterk. Stjórnvöld og Seðlabankinn róa í sömu átt og landið er ríkt af auðlindum. Ísland býr við mikið sjálfstæði í orkumálum miðað við ýmsar aðrar þjóðir og framleiðir mikla endurnýjanlega orku fyrir heimili og fyrirtæki. Íslensk heimili greiða lágt verð fyrir orku en verðlagning hennar lýtur ekki sömu lögmálum og verðlagning á orku á meginlandi Evrópu, þar sem íslenska flutningsnetið er ótengt því evrópska. Slíkt hjálpar óneitanlega við að halda aftur af verðbólgu. Þá byggist efnahagslífið á öflugum stoðum eins og gjöfulum fiskimiðum, heilnæmum landbúnaði og öflugri ferðaþjónustu. Allt eru þetta þættir sem styðja við að ná verðbólgunni niður til lengri og skemmri tíma. Það verkefni er stærsta verkefni hagstjórnarinnar þegar að fram í sækir enda ógnar há verðbólga velsæld, bæði beint og óbeint, og dregur þannig úr samstöðu í samfélaginu. Mikilvægt er að stjórnvöld standi áfram vaktina og verði tilbúin að grípa inn í, eftir því sem þurfa þykir, til að verja þann efnahagslega árangur sem náðst hefur á undanförnum árum.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst á mbl.is 8. sept. 2022.