Við lifum á tímum tæknisamruna. Á sama tíma og verið er að leggja niður gamla einfalda heimasímann huga fjarskiptafyrirtæki og stjórnvöld nú að uppbyggingu fimmtu kynslóðar farnets (5G) sem veitir hnökralausan aðgang að háhraðaneti, stafrænum samskiptum og háskerpu afþreyingu, tölvuvinnslu í skýinu o.fl. um lófastór handtæki.
Á samráðsfundum fjarskiptaráðs með landshlutasamtökum nýverið var tvennt sem stóð upp úr. Ljósleiðaravæðing þéttbýlis á landsbyggðinni bar þar hæst. Ég brást við því ákalli með grein hér í blaðinu 22. apríl síðastliðinn „Ísland fulltengt – ljósleiðaravæðing byggðakjarna“. Hitt atriðið var slitrótt farsíma- og farnetssamband á vegum. Mikilvægi farsímans sem öryggisbúnaðar er að aukast enda það samskiptatæki sem yfirleitt er með í för á öllum ferðalögum. Skilningur gagnvart sambandsleysi á vegum er að hverfa og greina þarf leiðir til úrbóta.
Farnet á vegum er samgöngumál
Opinber markmið um farnet á vegum er eðlilega að finna í fjarskiptaáætlun. Í drögum að nýrri byggðaáætlun er jafnframt að finna slíka áherslu. Góð fjarskipti eru meðal helstu byggðamála og því eðlilegt að það endurspeglist í byggðaáætlun.
Aðgengi, gæði og öryggi farnets á vegum verður í fyrirsjáanlegri framtíð eitt af stærri viðfangsefnum í samgöngum. Tímabært er að áherslur og eftir atvikum verkefni er varða farnet á vegum verði einnig í samgönguáætlun. Skortur á farneti á vegum getur verið dauðans alvara. Um er að ræða brýnt og vaxandi öryggismál fyrir vegfarendur, veghaldara og viðbragðsaðila.
Undirbúningur hafinn
Póst- og fjarskiptastofnun, sem brátt fær nafnið Fjarskiptastofa, vinnur nú að undirbúningi langtíma úthlutunar á farnetstíðnum á landsvísu til rekstraraðila farneta. Liður í því er verkfræðileg greining á uppbyggingarþörf og kostnaði við aðstöðusköpun og farnetskerfi sem tryggir fulla útbreiðslu af tilteknum gæðum á skilgreindum vegum um allt land. Niðurstaða þeirrar greiningar mun liggja fyrir í haust og opnar möguleika á að útbúa sviðsmyndir um hagkvæma uppbyggingu farnets í vegakerfinu og aðkomu ólíkra aðila. Óhjákvæmilegt er að horfa þar m.a. til tæknisamruna opinberra dreifikerfa og hagnýta eiginleika 5G til að leysa af hólmi a.m.k. víðast hvar, núverandi dreifikerfi útvarps og TETRA kerfi neyðar- og viðbragðsaðila. Eitt öflugt landsdekkandi kerfi í stað þriggja.
Hraðvirkt, slitlaust og öruggt farnet á öllum helstu vegum landsins er í senn byggða-, fjarskipta- og samgöngumál sem varðar hagsmuni allra landsmanna. Undirbúningur fyrir næstu samgönguáætlun og fjarskiptaáætlun er hafinn. Ég hef því falið formönnum samgönguráðs og fjarskiptaráðs að sjá til þess að undirbúningur þessara tveggja lykil innviðaáætlana samfélagsins verði í takt og að þær vinni þétt saman er kemur að farneti gagnvart vegum. Áfram Ísland – fulltengt.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar og samgöngu-og sveitarstjórnarráðherra.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 1. júlí 2021.