Einn mikilvægasti vettvangur samtímalistar í heiminum, Feneyjatvíæringurinn 2021, opnar dyr sínar að nýju í vikunni, ári á eftir áætlun vegna heimsfaraldursins. Tvíæringurinn hefur verið haldinn annað hvert ár með nokkrum undantekningum allar götur síðan 1895 og er orðinn þungamiðja í alþjóðlegum listum og menningu. Listamenn hvaðanæva úr heiminum sem hafa verið valdir af þjóðlöndum sínum streyma til Feneyja til að kynna list sína og varpa jákvæðu ljósi á land og þjóð. Það er mikill heiður fyrir þann íslenska myndlistarmann sem valinn er til þátttöku á tvíæringnum hverju sinni. Ísland tók fyrst þátt í hátíðinni árið 1960 þegar þeir Jóhannes Sveinsson Kjarval og Ásmundur Sveinsson voru valdir til þátttöku og hefur síðan þá einvala lið íslenskra listamanna tekið þátt í hátíðinni, allt frá Erró til Kristjáns Davíðssonar.
Fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum nú er myndlistarmaðurinn Sigurður Guðjónsson. Hann er þekktur fyrir magnþrungin vídeóverk þar sem mynd, hljóð og rými mynda órofa heild. Sigurður á yfir tuttugu einkasýningar að baki víðs vegar um heiminn og hlaut hann meðal annars Íslensku myndlistarverðlaunin árið 2018. Á síðustu árum hefur Sigurður einnig unnið í samstarfi við tónskáld og þannig búið til verk sem sameina vídeó, rafhljóð og lifandi flutning listunnendum til yndisauka.
Þátttaka á hinum alþjóðlega Feneyjatvíæringi skiptir máli fyrir íslenska menningu. Árið 1984 varð sú jákvæða breyting að Ísland eignaðist einn eigin þjóðarskála til sýningarhalds á tvíæringnum en frá árinu 2007 hefur skálinn verið til húsa víðsvegar um borgina. Árið 2020 tryggðu stjórnvöld hins vegar fjármagn til að færa sýningarsvæði Íslands á Feneyjatvíæringnum 2022 á aðalsvæði hátíðarinnar. Samhliða því lagði Íslandsstofa til fjármagn til kynningar á þátttöku Íslands í samvinnu við Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar. Með tilfærslu íslenska skálans skapast ótvíræð tækifæri til að kynna betur íslenska myndlist en í kringum sex hundruð þúsund gestir heimsækja að jafnaði það svæði sem skálinn stendur nú á. Það þýðir að gestafjöldi í íslenska skálanum geti nær tuttugufaldast frá því sem verið hefur síðastliðin ár.
Er þetta í takt við áherslur stjórnvalda um að beina sjónum að frekari tækifærum til vaxtar á sviði menningar og lista, meðal annars á virtum alþjóðlegum viðburðum og sýningum. Munu slíkar áherslur meðal annars birtast í nýrri myndlistarstefnu fyrir Ísland sem kynnt verður á fyrstu 100 starfsdögum nýs menningar- og viðskiptaráðuneytis. Það er gleðilegt að fleiri fái notið framlags Íslands á Feneyjatvíæringnum með betra aðgengi. Íslenski skálinn með Sigurð Guðjónsson í stafni er tilbúinn í tvíæringinn, landi og þjóð til sóma!
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 20. apríl 2022.