Íslenskur landbúnaður er undirstaða byggðar víða um land. Þúsundir manna starfa við hann og enn fleiri byggja afkomu sína á að vinna úr landbúnaðarafurðum eða þjónustu við landbúnað. Við þekkjum vel afurðir landbúnaðarins og ljóst er að margir sóknarmöguleikar eru fyrir hendi. Því hefur verið haldið fram að skyr eigi möguleika á að ná svipaðri stöðu á heimsvísu og grísk jógúrt ef rétt er á málum haldið. Þessa sókn verður að byggja á okkar sérstöðu og áherslu á heilnæman landbúnað í sátt við samfélagið og náttúruna.
Við eigum nóg af hreinu vatni. Við notum óverulegt magn af sýklalyfjum og varnarefnum, en við þurfum að greina sérstöðuna með skipulegri hætti til að geta sótt fram. Það þarf að ráðast í frekari greiningu á sérstöðu íslensks landbúnaðar gagnvart öðrum nágrannalöndum. Þá þarf að skoða íslenskan landbúnað út frá skuldbindingum í loftslagsmálum. Það þarf til dæmis að leggja mat á kolefnisfótspor íslenskra landbúnaðarafurða í samanburði við þær innfluttu og skoða hvernig landbúnaðurinn getur lagt sitt af mörkum til að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum. Framsókn leggur ríka áherslu á að horft verði til neytendaverndar, meðal annars með því auka upplýsingagjöf til neytenda um kolefnisfótspor vöru, uppruna vöru, lyfjainnihald, dýravelferð og aðra þætti sem ráða því hversu heilnæm vara getur talist í huga neytenda.
Stjórnvöld og fólkið í sveitum landsins verða að vinna áfram saman eins og aðrar þjóðir í kringum okkur gera. Annars er samkeppnin ekki á jafnréttisgrundvelli. Það höfum við gert í gegnum búvörusamning, sem er til þess fallinn að ramma landbúnaðarstefnuna og þróa hana í þá átt að hún þjóni sem best neytendum og bændum.
En við getum nýtt tækifæri okkar betur. Til dæmis með því að beita utanríkisþjónustunni í meira mæli og greina betur þá möguleika sem felast í gildandi fríverslunarsamningum til að koma landbúnaðarafurðum okkar betur á framfæri.
Landbúnaðurinn og ferðaþjónustan í dreifbýlinu eru stoðir sem þurfa á hvorri annarri að halda. Ferðamenn vilja sjá líf í landinu, dýr í sínu náttúrulega umhverfi og afurðir sem þeir geta fengið að bragða á. Sömuleiðis þarf að vera til staðar fólk til að veita ferðamanninum þjónustu. Sífellt fleiri bændur sinna ferðaþjónustu og það liggja mikil tækifæri í því að kynna íslensk matvæli betur fyrir ferðamönnum. Landbúnaðurinn er stór hluti af íslenskri menningu, af því hver við erum og hvaðan við komum. Framsókn vill að við nýtum alla þessa möguleika með skipulegum hætti og sækjum fram með íslenskum landbúnaði.
Lilja Alfreðsdóttir
Greinin birtist í Morgunblaðinu 14. október 2017.