Categories
Greinar

Jafnrétti er ekki annað hvort eða …

Deila grein

23/01/2014

Jafnrétti er ekki annað hvort eða …

Anna-Kolbrun-ArnadottirJafnrétti á sér margar hliðar. Segja má að jafnrétti snúi að mannréttindum og undanfarin misseri hefur umræða um aukinn hlut kvenna bæði í stjórnmálum og atvinnulífinu almennt verið áberandi. Ákveðið hefur verið að fara í aðgerðir til þess að auka hlut kvenna á þessum sviðum. Einnig hefur verið lögð áhersla á að fjölmiðlar hugi að því að velja viðmælendur af báðum kynjum, það hallar mjög á konur. Þessi tegund jafnréttis fjallar um kynjajafnrétti og ábendingarnar og fyrirhugaðar aðgerðir eru þarfar og vissulega er kominn tími til að bæta úr.

En eins og áður sagði þá á jafnrétti sér margar hliðar og hefur Eygló Harðardóttir ráðherra félagsmála beitt sér markvisst að því að benda á að svo sé. Nýverið fóru fram Vetrarhæfileikarnir í Borgarleikhúsinu með þátttöku hæfileikafólks úr röðum fatlaðra og ófatlaðra einstaklinga og var það réttindavakt Velferðarráðuneytisins sem stóð að leikunum í samstarfi við Geðhjálp, Öryrkjabandalagið og Þroskahjálp. Markmið leikanna var að auka vitund almennings um styrkleika fatlaðs fólks, sem sagt að vekja athygli á fjölbreytileika mannlífsins. Jafnrétti snýst um jafnan rétt allra til þátttöku í samfélaginu.

Ráðherra hefur einnig réttilega bent á að nútíma fjölskyldan sé margbreytileg, ekki sé gefið að hún sé mamma, pabbi börn og bíll heldur eru fjölskyldur í dag margbreytilegar, þær eru af öllum stærðum og gerðum. Tímarnir breytast og samfélagsgerðin einnig og þess vegna var ánægjulegt að heyra í umræðum á Alþingi að Haraldur Einarsson okkar þingmaður gerði það að umtalsefni að endurskoða þyrfti barnalög frá árinu 2003 og þá sérstaklega það ákvæði sem segir að ef foreldrar barns séu hvorki í hjúskap eða í skráðri sambúð við fæðingu þess þá sé það móður að fara með forsjá barnsins. Það er rétt hjá Haraldi, þessu þarf að breyta, það á að ganga á út frá sameiginlegri forsjá barns, það er réttur barnsins. Jafnrétti snýst um að barn eigi rétt á umgegni við báða foreldra sína.

Jafnrétti á sér margar hliðar, það er ekki annað hvort eða.

Anna Kolbrún Árnadóttir, jafnréttisfulltrúi Framsóknar