Categories
Greinar

Sex konur í forystu í stórum sveitarfélögum árið 1990 fyrir Framsóknarflokkinn

Deila grein

21/01/2014

Sex konur í forystu í stórum sveitarfélögum árið 1990 fyrir Framsóknarflokkinn

Sigrún MagnúsdóttirÁ ljúfum janúardegi söfnuðust konur úr öllum flokkum saman í Iðnó til að hvetja kynsystur sínar til forystu á listum við komandi sveitarstjórnakosningar. Undirritaðri leið allt í einu undarlega og yfir mig kom óraunveruleikatilfinning. Hvers vegna þurfa stjórnmálaflokkar árið 2014 að fjalla um jafn sjálfsagðan hlut, sem er að konur komi jafn og karlar til greina í efsta sætið á framboðslistum í komandi sveitarstjórnarkosningum.

Fyrir rúmum 30 árum stofnuðum við Landssamband framsóknarkenna til að örva konur um allt land til þátttöku í stjórnmálum og þar með mótum samfélagsins. Sem betur völdust gvalvaskar baráttukonur til að leiða samtökin og brugðust við verkefninu með áhrifamiklum hætti.

Málvík

Framsóknarkonurnar settu upp ímyndað sveitarfélag: Málvík. Þær fóru með Málvíkur-hugmyndina um landið og konur léku hlutverkin í stjórn sveitarfélagsins Málvíkur. Þær fluttu ræður á fundum, bjuggu til atvinnutækifæri og byggðu leikskóla auk margs annars. Þær fóru í rökræður sín á milli um brýnustu verkefnin o.s.frv.

Árangurinn varð í raun stórkostlegur. Valgerður Sverrisdóttir komst á þing árið 1987 og í næstu sveitarstjórnarkosningu voru framsóknarkonur í efstu sætum lista flokksins um allt land. Í stóru sveitarfélögunum Akureyri og Reykjavík trónuðu þær, sem og á Dalvík og Keflavík, Húsavík og Akranesi, á toppnum.

Hvers vegna höfum við ekki áfram gengið götuna til góðs…? Af hverju hefur þessari þróun hnignað fremur en vera í framför innan okkar raða? Við sem vorum svo stoltar þegar í fyrsta sinn í sögu landsins var jafnt hlutfall kvenna og karla í forystusætum til Alþingis í kjördæmum landsins 3 konur og 3 karlar. Enda fór svo að við komumst í ríkisstjórn og hlutfallið milli karla og kvenna þar hjá Framsóknarflokknum var jafnt þrjár konur og þrír karlar.

Gríðarlega margt hefur áunnist á Islandi í jafnréttismálum almennt og erum við á erlendri grundu skoðuð með sérstakri athygli hvað þennan árangur varðar. En… því miður finnst mér að þátttaka kvenna í almennum störfum flokksins og fundum fari aftur og það speglast líka í áhugaleysi við að bjóða sig fram til áhrifa á listum flokksins.

Sjónarhorn kvenna …

Kæru flokkssystur! Við þurfum á ykkur að halda. Samfélagið þarfnast ykkar og ég tala ekki um sveitarfélagið ykkar. Sjónarhorn kvenna verður að vera með í ákvarðanatökum sem varða okkur öll. Sveitarfélög voru skilgreind í upphafi vega – til að ákv. öryggisnet yrði virkt gagnvart íbúum sem minna mega sín. Það var stórt mál árið 1936 þegar almannatryggingarkerfið var sett á. Það er grunnurinn sem við byggjum til hjálpar fólki á öllum aldri sem lenda í lífsins ólgusjó eins og að missa heilsuna. Þetta öryggisnet erum við stöðugt að reyna að bæta og staga í eftir bestu vitund á hverjum tíma. Möskvar geta trosnað eða slitnað og þá þarf að reyna að stoppa upp í slík göt.

Það er nákvæmlega það sem ríkisstjórn Sigmundar Davíðs hefur verið að gera síðan hún tók við. Fjárlögin sem samþykkt voru laugardaginn 21. des. á vetrarsólstöðum voru mögnuð. Stórkostleg vegna þess hvað þau innihalda og ótrúlegt hvað var unnt að gera í mjög þröngri stöðu. Almannatryggingakerfið var aukið um heila 8 milljarða mkr. og heilbrigðiskerfið um 4 milljarða, svo dæmi séu tekin.

Framsóknarkonur! ég bið ykkur að sýna djörfung og dug og sækja fram um land allt. Reynsla af sveitarstjórnarmálum er einn besti skóli sem völ er á og nýtist alla ævi í öllum störfum.

 

Sigrún Magnúsdóttir