Sem mennta- og menningarmálaráðherra á Íslandi hef ég mikinn áhuga á aukinni tækninotkun, bæði í skólum og samfélaginu í heild. Fáar þjóðir slá Íslendingum við varðandi fjölda nettenginga, samfélagsmiðlanotkun eða fjölda snjalltækja á mann.
Samskipti við snjalltæki gerast í auknum mæli með tali, í stað hins skrifaða orðs. Tækin kunna hins vegar ekki íslensku og því óttumst við afdrif tungumálsins okkar. Það hefur varðveist nær óbreytt í þúsund ár og er kjarninn í menningu og sjálfsmynd þjóðarinnar.
Góð og alhliða móðurmálsþekking er mikilvæg fyrir persónulegan þroska barna, menntun þeirra og hæfni til að móta hugsanir sínar og hugmyndir. Með aukinni snjalltækjanotkun eykst því þörfin á að tækin skilji móðurmálið okkar.
Við höfum unnið okkar heimavinnu. Íslensk stjórnvöld hafa leitt saman vísindamenn, frumkvöðla og einkafyrirtæki í umfangsmiklum og metnaðarfullum verkefnum sem miða að því að efla máltækni hér á landi. Til dæmis eru mörg hundruð klukkustundir af talmálsupptökum aðgengilegar fyrir þá sem vilja þróa íslenskar snjalltækjaraddir. Þúsundir klukkustunda af hljóðdæmum eru einnig fáanlegar sem má nota til að kenna tækjunum íslensku.
Nú leitum við þinnar aðstoðar við að varðveita menningararfleifð Íslands, sem tungumálið okkar geymir. Ég bið Apple að leggja okkur lið með því að bæta íslensku við radd-, texta- og tungumálasafn sinna stýrikerfa – svo við getum talað við tækin ykkar á móðurmáli okkar, varðveitt menningararfleifðina áfram og stuðlað að betri skilningi í tengdum heimi.“
Svohljóðandi bréf á ensku sendi ég til forstjóra tæknirisans Apple í gær. Eins og textinn ber með sér er tilgangurinn að leita liðsinnis stærsta og öflugasta fyrirtækis í heimi við varðveislu íslenskunnar. Við væntum góðra viðbragða, enda sýnir reynslan að dropinn holar steininn og á okkur er hlustað. Þar nægir að nefna viðbrögð Disney við hvatningu okkar um aukna textun og talsetningu á íslensku á streymisveitunni Disney+ á liðnum vetri. Sú viðleitni hefur nú þegar birst í betri þjónustu við íslensk börn og aðra notendur streymisveitunnar.
Aukin færni Íslendinga í öðrum tungumálum – sérstaklega ensku – er jákvæð og skapar margvísleg tækifæri. Það á ekki síst við um börn og ungmenni. Enskukunnáttan eflir þau, en samtímis ógnar alþjóðavæðing enskunnar menningarlegri fjölbreytni og nýsköpun. Án tungumáls verða hugmyndir ekki til og ef allir tala sama tungumálið er hugmyndaauðgi stefnt í voða og framförum til lengri tíma.
Það eiga ekki allir að vera eins og við treystum á liðsinni þeirra stærstu í baráttunni fyrir framtíð íslenskunnar.
Höfundur er mennta- og menningarmálaráðherra.
Höfundur: Lilja Dögg Alfreðsdóttir
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 21. september 2021.