Categories
Greinar

Kastljós kvikmyndaheimsins á Íslandi

Deila grein

12/12/2022

Kastljós kvikmyndaheimsins á Íslandi

Kast­ljós kvik­mynda­heims­ins bein­ast nú að Íslandi þegar Evr­ópsku kvik­mynda­verðlaun­in (e. Europe­an Film Aw­ards) fara fram í Hörpu í kvöld. Það er mik­ill heiður fyr­ir Ísland að Reykja­vík hafi orðið fyr­ir val­inu sem vett­vang­ur verðlaun­anna en hátíðin er hald­in annað hvert ár í Berlín en þess á milli til skipt­is í öðrum borg­um Evr­ópu en ís­lenska ríkið og Reykja­vík­ur­borg halda hátíðina í sam­starfi við Evr­ópsku kvik­mynda­aka­demí­una.

Það að halda hátíð sem þessa hér á landi er enn ein rós­in í hnappagat ís­lenskr­ar kvik­mynda­menn­ing­ar sem hef­ur eflst mjög á umliðnum árum. Miklu er til tjaldað við að halda hátíðina en um 1.200 gest­ir verða viðstadd­ir hana, þar af um 700 er­lend­ir gest­ir frá yfir 40 lönd­um auk yfir 100 blaðamanna og áhrifa­valda sem munu gera hátíðinni skil.

Á umliðnum árum hafa stór skref verið tek­in til þess að efla ís­lenska kvik­mynda­gerð. Fyrsta heild­stæða kvik­mynda­stefn­an fyr­ir Ísland, Kvik­mynda­stefna til árs­ins 2030 – List­grein á tíma­mót­um, var kynnt fyr­ir tveim­ur árum sem markaði ákveðin vatna­skil. Í henni eru út­l­istuð ýmis mark­mið og fjölþætt­ar aðgerðir til þess að efla um­gjörð kvik­mynda­gerðar hér á landi, til að mynda í mennta­mál­um, betri sam­keppn­is­stöðu, auk­inni sjálf­bærni og mark­vissu alþjóðlegu kynn­ing­ar­starfi.

Mik­ill metnaður hef­ur verið lagður í fram­fylgd stefn­unn­ar á skömm­um tíma. Þannig fékk Kvik­mynda­sjóður aukainn­spýt­ingu upp á tæp­an millj­arð króna vegna heims­far­ald­urs­ins. Í gær var til­kynnt um áætlaða viðbótar­fjármuni á næsta ári til þess að koma til móts við breyt­ing­ar í rík­is­fjár­mála­áætl­un frá því í sum­ar. End­ur­greiðslu­hlut­fall í kvik­mynda­gerð á Íslandi hef­ur verið hækkað í vor úr 25% í 35% en fram­lag til end­ur­greiðslna í kvik­mynda­gerð á næsta ári er áætlað upp á 5,7 millj­arða króna, sem er veru­leg hækk­un. Fjár­mun­ir til kvik­mynda­mennt­un­ar á fram­halds­skóla­stigi voru aukn­ir og langþráðu kvik­mynda­námi á há­skóla­stigi komið á lagg­irn­ar svo dæmi séu tek­in.

Allt þetta skipt­ir máli fyr­ir þann öfl­uga hóp fólks sem hef­ur helgað sig ís­lenskri kvik­mynda­gerð, en án hans væri kvik­myndaiðnaður­inn fá­tæk­leg­ur hér á landi. Íslensk kvik­mynda­menn­ing er orðin samof­in þjóðarsál­inni og menn­ingu lands­ins. Sá ríki vilji stjórn­valda til þess að sækja um að halda Evr­ópsku kvik­mynda­verðlaun­in hér á landi var meðal ann­ars með of­an­greint í huga, að til­einka hátíðina gras­rót­inni í ís­lenskri kvik­mynda­gerð og und­ir­strika það, með veg­leg­um kast­ljós­um, hversu framar­lega Ísland stend­ur í heimi kvik­mynd­anna. Ég óska öll­um til ham­ingju með hátíð dags­ins, sem verður landi, þjóð og menn­ingu til sóma.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar­málaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst á mbl.is 10. desember 2022.