Það var verulega ánægjulegt að frétta af því á dögunum að rannsóknarhópur undir forystu Unnar Önnu Valdimarsdóttur, prófessors í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands, hlaut 150 milljóna króna styrk frá norrænu rannsóknastofnuninni NordForsk, til rannsóknar sem tengist áhrifum kórónuveirufaraldursins á geðheilsu í hinum fjórum norrænu ríkjunum og Eistlandi.
Verkefnið var eitt af fimm norrænum rannsóknarverkefnum sem tengdust heimsfaraldrinum sem fengu styrk en markmið þeirra er að auka þekkingu í þágu heimsins alls á áhrifum þessa skæða sjúkdóms. Rannsóknarverkefnin fimm snerta fjölbreytt rannsóknarsvið geðrænna þátta í orsökum og afleiðingum Covid-19-sjúkdómsins. Vonast er til að hin nýja þekking sem hlýst út úr rannsóknunum geri norrænu löndunum kleift að takast betur á við nýjar áskoranir innan heilbrigðiskerfa landanna í kjölfar faraldursins og faraldra framtíðarinnar.
Skrá yfir 27 milljónir íbúa
Þegar kórónuveirufaraldurinn reið yfir norrænu löndin í mars samþykkti stjórn NordForsk án tafar að auglýsa útboð til rannsókna á Norðurlöndunum á Covid-19. Rannsóknarráð í hverju landi lagði inn peninga í sameiginlegan sjóð til að raungera stöðuna og tók Rannís þátt í þeirri fjármögnun. Smám saman bættust Eistland og Lettland inn í samstarfið. Frá því faraldurinn hófst hafa heilbrigðisyfirvöld á Norðurlöndunum safnað kunnáttu og gögnum sem vistuð eru í heilsufarsskrám. Á Norðurlöndunum eru 27 milljónir íbúa og því er nú þegar til nægt magn rannsóknargagna um Covid-19-sjúklinga og með samstarfi landanna í milli eru til nægileg gögn til að útfæra góðar rannsóknir.
Samvinna og vísindaleg gæði
Það er engum blöðum um það að fletta að slíkur styrkur sem barst íslenska rannsóknarteyminu á dögunum hefur gríðarmikla þýðingu, ekki einungis hérlendis, heldur fyrir Norðurlöndin í heild og hefði ekki orðið að veruleika nema fyrir tilstuðlan norrænu rannsóknastofunnar NordForsk. Hún var stofnuð árið 2005 af Norrænu ráðherranefndinni og er aðalmarkmiðið að gera rannsóknarsamvinnu á Norðurlöndunum skilvirkari og að hún byggi á trausti. Ákveðinn gæðastimpill á alþjóðavísu er á rannsóknum sem fjármagnaðar eru af NordForsk sem kristallar norrænan virðisauka. Við val á verkefnum sem fjármögnuð eru leggur NordForsk ætíð áherslu á vísindaleg gæði og möguleikann á að skapa aukið virði fyrir Norðurlöndin.
Virðið er fengið með því að krafa er um að rannsóknaraðilar frá að lágmarki þremur löndum starfi saman að hverju verkefni og þegar unnið er með ákveðin viðfangsefni, fyrirbæri eða álitamál sem eiga sér einungis stað á Norðurlöndunum eins og til dæmis norræna velferðarlíkanið, sérstakar loftslagsaðstæður, áskoranir varðandi samfélagsöryggi og við notkun á skrám sem eru eingöngu fengnar á Norðurlöndunum. Aukna norræna virðið verður einnig til þegar samvinna rannsókna leiðir til þess að mikilvæg þekking byggist upp innan ákveðins sviðs. Þetta gerist þegar gögn eru framkölluð sem hægt er að nota til stefnumótunar og til bættrar opinberrar stjórnsýslu eða að rannsóknarniðurstöður leiða til þess að norrænt atvinnulíf verður sjálfbærara og samkeppnishæfara.
Silja Dögg Guunarsdóttir, forseti Norðurlandaráðs og Arne er framkvæmdastjóri NordForsk.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 6. nóvember 2020.