Áhrif heimsfaraldurs á menningu og skapandi greinar um heim allan hafa verið gríðarleg. Aðstæðurnar hafa dregið fram styrk og veikleika ólíkra greina, en jafnframt gert fleirum ljóst hversu efnahagslegt fótspor þeirra er stórt.
Mörg ríki leita nú leiða til að efla hugvitsgreinar á borð við kvikmynda-, tónlistar- og leikjaiðnað og aðrar listgreinar. Tekjur þessara greina á heimsvísu nema hundraðföldum þjóðartekjum Íslendinga, eða um 2 trilljónum Bandaríkjadala á ári. Að auki knýja þær áfram nýsköpun og skapa virðisauka innan annarra greina.
Sumar skapandi greinar hafa blómstrað í heimsfaraldrinum. Þar má nefna leikjaiðnað og aukna alþjóðlega eftirspurn eftir kvikmynduðu efni og tónlist, gegnum streymisveitur af ýmsum toga. Misjafnt er hve miklar tekjur skila sér til rétthafa, en öllum er ljóst að mikil tækifæri eru til staðar. Þannig er því spáð að tónlistargeirinn muni tvöfaldast að efnalegu verðmæti á næstu árum og á Íslandi hefur kvikmyndaiðnaður aldrei verið jafn umsvifamikill og í fyrra. Þar kom margt til, því auk faglegra þátta voru ytri aðstæður hagstæðar fyrir erlenda framleiðendur. Endurgreiðslukerfið er gott og gengisþróun var þeim hagstæð. Ísland var jafnframt eitt fárra landa sem buðu fulla þjónustu, á meðan sum voru nánast lokuð vegna heimsfaraldurs. Hér tókst greininni að þróa og tryggja framkvæmd á skýrum sóttvarnareglum á kvikmyndatökustað, halda verkefnum gangandi og laða til landsins ný – t.d. bandarísku MasterClass-netnámskeiðsröðina sem íslenskir kvikmyndagerðarmenn hafa unnið og tekið upp í tónlistarhúsinu Hörpu.
Það er mikilvægt að Ísland styrki stöðu sína á vaxandi kvikmyndamarkaði. Efli umgjörð kvikmyndaframleiðslu, byggi á sömu prinsippum og áður en taki virkan þátt í alþjóðlegri samkeppni um kvikmyndaverkefni. Einfalt endurgreiðslukerfi er meðal þess sem við eigum að rækta enn frekar. Við ættum að hækka endurgreiðsluhlutfallið, eða nota það sem sveiflujafnara á móti gengisþróun. Hlutfallið gæti orðið allt að 35% þegar staða krónunnar er sterk en að lágmarki 25% þegar krónan er veikari. Einnig mætti hugsa sér stighækkandi endurgreiðslur eftir stærð verkefna til að laða stærri verkefni til landsins. Mikilvægt er þó að endurgreiðslukerfið sé sjálfbært. Þá er brýnt að hraða afgreiðslu mála, til að lágmarka kostnað framleiðenda við brúarfjármögnun sem stendur verkefnum fyrir þrifum.
Margir alþjóðlegir kvikmyndaframleiðendur hafa einnig kallað eftir betri aðstöðu til upptöku innanhúss árið um kring – kvikmyndaveri sem í bland við sterkara endurgreiðslukerfi myndi styrkja samkeppnisstöðu Íslands og tryggja okkur stærri hlut en áður í tekju- og atvinnuskapandi verkefnum. Það er ekki eftir neinu að bíða – byrjum strax.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og mennta- og menningarmálaráðherra.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 16. janúar 2021.