Categories
Greinar

Lækkum kostnað við íþróttaiðkun barna

Deila grein

14/05/2018

Lækkum kostnað við íþróttaiðkun barna

Áhrifarík leið til að veita jöfn tækifæri til íþróttaiðkunar óháð efnahag er að halda kostnaði í skefjum. Víða erlendis þurfa ungir íþróttaiðkendur ekki að standa skil á nema broti af þeim kostnaði sem hér tíðkast og oft fylgir fatnaður eða einhverskonar fríðindi með í æfingagjöldum.

Tálsýn meirihlutans í Kópavogi
Hverjar eru efndir Kópavogsbæjar á loforði um jöfn tækifæri til íþróttaiðkunar óháð efnahag? Er vilji til þess að halda niðri kostnaði í þágu iðkenda í Kópavogi?

Óþarft er að leggja í ítarlega rannsókn á pólitískri stefnumörkun meirihlutans í íþróttamálum til að komast að raun um að svo er ekki, þvert á móti hefur markaðsöflunum verið gefinn laus taumur í vösum foreldra með börn í íþrótta og tómstundastarfi.

Meirihlutinn hefur ekkert aðhafst á kjörtímabilinu til að sporna við hækkandi kostnaði. Þess í stað hefur hann hleypt markaðsöflunum enn dýpra í vasa iðkenda, meðal annars í gegnum sölu á æfinga- og keppnisfatnaði.

Samskipti bæjaryfirvalda við íþróttafélögin einkennast af skorti á samtali og skilningi gagnvart þörfum íþróttafélaganna og ekki síður foreldrum iðkenda. Því er þörf á virkri stefnumörkun af hálfu bæjaryfirvalda hvernig standa skuli að fjárstuðningi við íþrótta- og tómstundastarf barna og unglinga.

Nýjar lausnir
Í þessum anda geri ég að tillögu minni að Kópavogsbær vinni með íþróttafélögunum að lækkun kostnaðar við íþróttaiðkun barna, t.d. með lækkun kostnaðar við innkaup á íþróttafatnaði og öðrum búnaði. Bæjarfélagið gæti til að mynda veitt auka framlag til íþróttafélaganna með hverjum iðkanda, gegn því að keppnisfatnaður sé innifalinn eða til annarra kostnaðar lækkunar. Þannig myndi bæjarfélagið öðlast betri yfirsýn yfir raunkostnað iðkenda.

Þessi hugmyndafræði er ekki ólík þeirri aðgerð sem hefur þegar verið framkvæmd varðandi ókeypis skólagögn. Í krafti stærðar ættu íþróttafélögin að geta fengið mun hagstæðari kjör á fatnaði heldur enn einstakir iðkendur.

Með þessu yrði kostnaði raunverulega haldið niðri og skref tekið í þá átt að efna loforð um jöfn tækifæri til íþróttaiðkunar, óháð efnahag foreldra.

Sverrir Kári Karlsson.

Höfundur skipar 5. sæti á lista Framsóknarflokksins í Kópavogi fyrir komandi bæjarstjórnarkosningar.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 14. maí 2018.