Categories
Greinar

Tóta skrifar um fræðslumál leik- og grunnskóla

Deila grein

16/05/2018

Tóta skrifar um fræðslumál leik- og grunnskóla

B-listi Framsóknar- og félagshyggjufólks vill að börn og ungmenni í Dalvíkurbyggð fái menntun við hæfi því nám er undirstaða framtíðarinnar og mikilvægt að börnunum okkar líði vel í skóla og þau njóti sín í námi. Markmið grunnskólanna er að byggja upp góða grunnþekkingu og námsáhuga á sem flestum sviðum.  Við viljum veita framúrskarandi þjónustu og menntun í skólastofnunum okkar og vera stolt af því. Við erum heppin með að búa vel að góðum og fjölbreyttum mannauði í menntastofnunum okkar, það eru ekki allir grunnskólar með starfandi þroskaþjálfa, iðjuþjálfa og náms- og starfsráðgjafa við sínar stofnannir og er það eitt af því sem við megum vera hreykin af.  Við viljum að nám barnanna okkar sé í sífelldri mótun og að skólarnir nýti þá tækni og þróun sem býðst í skólastarfi hverju sinni. Teymisvinna innan grunnskólanna hefur reynst vel og er mikilvægt að styðja við hana. Eins hefur teymisvinna utan um einstaklinga og fjölskyldur í samvinnu við félagsþjónustu og skólahjúkrunarfræðing skilað góðum árangri síðastliðinn tvö ár og er í sífelldri þróun sem er afar jákvætt og mikilvægt að halda þeirri vinnu áfram.  Við viljum efla stoðþjónustu með því að tryggja leik- og grunnskólum aðgang að fjölskylduráðgjafa og/eða sálfræðingi. Það myndi auka þekkingu og styrkja og styðja við börnin okkar og fjölskyldur þeirra til framtíðar.

Það er þannig í öllu að alltaf er hægt að gera betur og ýmis sóknarfærin. T.d. væri flott ef skólarnir mættu vinna að því að kenna fjármálalæsi markvisst, efla nám á milli Dalbæjar, Félags eldri borgara og grunnskólanemenda svo sem með því að grunnskólanemendur færu og myndu aðstoða og kenna þeim eldri á Ipad/spjaldtölvur eða tölvur. Í því fellst mikið nám og góður ávinningurinn fyrir alla.

Leikskólarnir búa yfir mikilli reynslu og þekkingu sem alltaf má hlúa betur að og vinna markvissara með. Góður mannauður er í leikskólunum okkar og þarf að skoða leiðir til að efla áhuga, draga úr álagi og skoða starfsumhverfi í leikskólunum til að laða að leikskólakennara, aðra starfsmenn og auka nýliðun í stéttinni. Okkur ber að gæta þess að nám á fyrstu æviskeiðum barnanna okkar séu sem best og skilyrði til þess að þroskast og dafna séu framúrskarandi.

Þórhalla Franklín Karlsdóttir

Höfundur skipar 3. sæti B-lista í Dalvíkurbyggð.