Categories
Forsíðuborði Greinar

Lambakjötið

Deila grein

10/09/2017

Lambakjötið

Vandi sauðfjárbænda er augljós og hefur verið sýnt framá hve gríðarlegur tekjumissir bænda verður ef allt fer á versta veg. Hann verður 2.400 milljónir króna á tveimur árum. Bændur hafa síðan í vetur reynt að fá stjórnvöld til að opna augun fyrir vandanum með litlum árangri. Útspil ríkisstjórnarinnar kom seint og um síðir án þess að taka á vandanum í heild. Vandi greinarinnar er í raun ekki framleiðsluvandi heldur markaðsvandi. Víða í verslunum er erfitt eða ekki hægt að kaupa læri eða hryggi. Birgðavandinn er því væntanlega að mestu í öðrum vörum. Ef framleiðslan verður minnkuð um 20% líkt og ríkisstjórnin virðist stefna að þá verður augljóslega enn frekari vöntun á þessum vörum á næsta ári. Mun þá koma fram krafa frá Félagi atvinnurekenda um að fá að flytja inn lambakjöt í stórum stíl? Framleiðendur og verslanir hafa um árabil ekki sinnt markaðnum sem skyldi og metnaðarleysi verið þar ráðandi. Meðan fiskur, kjúklingur, svín ofl. var hanterað fyrir markaðinn var lítill metnaður í lambakjötinu. Það hefur þó breyst síðustu ár m.a. hefur Krónan boðið uppá nútímalegar sölueiningar. Þróunin er því á réttri leið, en það er heilmikið óunnið. Landbúnaðurinn þarf að verða mun meira markaðsdrifinn – ekki framleiðsludrifinn. Það er það sem verður að breytast.

Undirritaður beitti sér fyrir því sem landbúnaðarráðherra að 100 milljónir króna voru settar í markaðsmál fyrir erlenda markaði til að létta á birgðavandanum. Markaðssóknin verður að vera markviss og hafa það að markmiði að auka verðmæti hverrar einingar. Þrír aðilar þurfa að koma að málum, stjórnvöld, afurðastöðvar og bændur. Nefni ég hér örfá dæmi um hvað stjórnvöld geta gert:

1. Nú þegar á að taka upp sveiflujöfnun sem bændur hafa kallað eftir þannig að hægt sé að losa nú þegar um þær birgðir sem safnast hafa upp. Skv. hugmyndum bænda hefði ráðherra vald til að stöðva útflutning sé hætta á skorti á innanlandsmarkaði og því væri það að hans valdi að jafna sveiflur á markaðnum.
2. Á fundi þingflokks Framsóknarflokksins sl. mánudag kynnti ég þingmál sem ég hyggst leggja fram. Að sveiflujöfnunin yrði fest í lög og að undanþága frá samkeppnislögum yrði lögfest fyrir landbúnaðinn í heild. Það er mjög mikilvægt að okkar litli landbúnaður geti unnið sem ein heild t.d. er kemur að útflutningi en í dag er það ekki hægt. Fyrirkomulagið í mjólkurframleiðslu hefur reynst vel fyrir neytendur og framleiðendum tekist vel að tryggja gæðavörur á hagstæðu verði. Ef framþróun í útflutningi á að eiga sér stað verða framleiðendur að geta unnið saman.
3. 500 milljónum króna verði varið til markaðs og vöruhönnunar átaks þar sem áherslan verður lögð á nútímalegar vörur fyrir innanlandsmarkað og útflutning.
4. 100 milljónum króna verði varið í að styrkja frumkvöðlastarf í gegnum Landbúnaðarklasann.
5. Bændur sem hafa verið að þróa “beint frá býli” og/eða netsölu á framleiðslu sinni fái sérstakan stuðning.

Það er engin framtíðarsýn sem ríkisstjórnin er að bjóða með því að hvetja ungt fólk til að snúa baki við sauðfjárframleiðslu. Hér hef ég ekki rætt áhrif þess á samfélagið ef bændur bregða búi í stórum stíl en þau áhrif gætu orðið mikil.

Það er vel hægt að styrkja stöðu sauðfjárbænda til framtíðar en þá þarf að bregðast við strax og lykilatriðin liggja á borðum ríkisstjórnarinnar.

Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Framsóknarflokksins

Greinin birtist í Morgunblaðinu, 9. september 2017