Undanfarna daga hefur sú umræða sprottið upp hvort íslenska ríkið eigi að selja hluti sína í Landsvirkjun til að bregðast við halla á ríkissjóði sem tilkominn er vegna kórónuveirufaraldursins. Einstaka þingmenn hafa viðrað hugmyndir um að selja hluti í Landsvirkjun en þingmenn Framsóknar eru alfarið á móti þessum hugmyndum og koma ekki til með að breyta þeirri afstöðu.
Landsvirkjun er samfélagslega mikilvægt fyrirtæki og mun halda því áfram með aukinni eftirspurn eftir grænni orku á komandi árum. Landsvirkjun hefur verið að greiða upp skuldir sínar og mun því geta á næstu árum farið að skila ríkissjóði arði árlega. Sá hagnaður getur skipt sköpum um afkomu ríkissjóðs, sem þarf traustan og tryggan hagnað næstu áratugi, sérstaklega eftir efnahagslegar aðgerðir ríkisins vegna Covid-19. Fjölbreyttur kaupendahópur mun smám saman styðja við og auka verðmæti seldrar orku, þ.e. hámarka afrakstur orkuauðlindanna á eðlilegum nýtingartíma.
Framsókn tekur afstöðu með almenningi
Það er skýrt að samfélagið allt á að njóta arðsins sem Landsvirkjun mun skila um ókomin ár. Landsvirkjun gegnir lykilhlutverki í nýtingu hreinna og endurnýjanlegra orkugjafa til framtíðar. Áframhaldandi eignarhald íslenska ríkisins í Landsvirkjun getur leitt til mikillar hagsældar fyrir þjóðina. Við stjórnmálamenn allra flokka þurfum að hlusta á og vinna að vilja almennings, enda er vilji hans skýr að orkumál verði ekki færð í hendur einkaaðila. Áskorunin er að sigra þann freistnivanda sem myndast við skjótan gróða af einkavæðingu. Einkavæðing getur lagað fjárhag ríkisins í nokkur ár, en í stóru myndinni er langtímahagnaður af áframhaldandi eignarhaldi í Landsvirkjun töluvert meira aðlaðandi. Það hefur aldrei talist góð hugmynd að slátra mjólkurkúnni fyrir skjótfenginn gróða.
Við eigum að nýta náttúruauðlindir þjóðarinnar af varúð og virðingu. Nýting þeirra á að vera samfélaginu öllu til hagsbóta. Arðurinn á að vera til uppbyggingar og velferðar. Landsvirkjun er eitt af fjöreggjum þjóðarinnar og mun gegna lykilhlutverki í nýtingu hreinna og endurnýjanlegra orkugjafa til framtíðar. Því kemur ekki til greina að einkavæða félagið, selja í því hluti eða framkvæmdir. Ekki á okkar vakt.
Ingibjörg Isaksen, þingmaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst á visir.is 9. mars 2022.