Categories
Greinar

Langþráð réttlæti fyrir heimilin

Deila grein

28/03/2014

Langþráð réttlæti fyrir heimilin

Silja Dögg GunnarsdóttirFramsókn fyrir heimilin, var slagorð Framsóknarflokksins fyrir síðustu alþingiskosningar. Þingmenn Framsóknarflokksins hafa barist fyrir því um fimm ára skeið, að komið yrði til móts við skuldsett heimili með verðtryggð húsnæðislán. Auðvitað hefði verið best fyrir alla ef forsendubresturinn hefði verið leiðréttur strax árið 2009, en það var ekki gert og nú þurfum við að horfa til framtíðar. Loksins eru skuldaleiðréttingafrumvörpin komin fram og það eru góðar fréttir.

Jafnræði
Heildarumfang aðgerðanna munu skila heimilum landsins allt að 150 milljörðum króna. Þær munu ná til allt að 100 þúsund heimila, sem eru 80% allra heimila landsins. Hlutfall fjárhæðar niðurfærslu og árstekna er hærra hjá tekjulægri heimilum en þeim tekjuhærri. Þannig að þeir tekjulægri fá í raun meira. Meðalfjárhæð niðurfærslu hækkar eftir því sem fjöldi barna er meiri, þar sem stærri fjölskyldur eiga iðulega stærra húsnæði og meiri skuldir. Leiðréttingin er fjármögnuð með bankaskattinum, sem nær til þrotabúa og þar með kröfuhafa. Skattgreiðendur eru sumsé EKKI að greiða leiðréttinguna í þeim skilningi sem sumir vilja túlka svo.

Einfalt
Gert er ráð fyrir að menn munu geta sótt um leiðréttingu eftir 15. maí á vef Ríkisskattstjóra, www.rsk.is, og umsóknartímabilinu lýkur 1. september. Umsóknarformið er einfalt og sumir segja að það verði einfaldara en að panta sér pizzu. Það er á valdi hvers og eins hvort hann sækir um leiðréttingu og hvort fólk vilji nýta báðar leiðir, þ.e. höfuðstólslækkun og/eða séreignasparnaðinn. En þess má geta að séreignarsparnaðarleiðin mun einnig nýtast ungu fólki við að kaupa sína fyrstu íbúð.

Í þessu samhengi er ekki hægt að líta framhjá tilvist verðtryggingarinnar og auðvitað hefði maður viljað sjá skuldaleiðréttinguna verða meiri. Framsóknarflokkurinn virðist vera eini flokkurinn sem er með það á stefnuskrá sinni að  afnema verðtrygginguna og við munum halda áfram að berjast fyrir afnámi hennar. Rétt er að benda á að ef þessi leiðrétting kæmi ekki til nú, þá yrði hækkun höfuðstóls enn meiri vegna verðbólgunnar.

Sanngjarnt
Þegar núverandi ríkisstjórn tók við völdum, fyrir tæpu ári síðan, þá var varla liðinn einn sólarhringur áður en sumir töluðu um svikin loforð. Nú hefur stærsta kosningaloforðið verið efnt og þá reyna sumir að gera lítið úr skuldaleiðréttingunni. Hið rétta er hins vegar að um jafnræðisaðgerð er að ræða, aðgerð sem mun koma flestum íslenskum heimilum til góða. Loksins fær undirstaða samfélagsins, íslensku heimilin, að njóta einhverrar sanngirni og réttlætis.

Silja Dögg Gunnarsdóttir

Greinin birtist á hornafjordur.is 28. mars 2014.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.