Categories
Greinar

Leiga raunverulegur valkostur

Deila grein

28/09/2015

Leiga raunverulegur valkostur

Jóhanna María - fyrir vefSilja-Dogg-mynd01-vefEin helsta áhersla Framsóknar – á þessu kjörtímabili sem öðrum – hefur verið á heimilin í landinu. Í byrjun ársins fórum við að sjá áhrif leiðréttingarinnar á verðtryggðum húsnæðislánum og í vor var samþykkt, samhliða gerð kjarasamninga, að ráðast í umfangsmiklar aðgerðir til úrbóta á húsnæðismarkaði, bæði fyrir leigjendur og eigendur.

Fleiri á leigumarkaði 

Frá árinu 2007 hefur hlutfall heimila í leiguhúsnæði hækkað ört, hvort sem litið er til höfuðborgarsvæðisins eða landsbyggðarinnar, almenna markaðarins eða félagslegra leiguíbúða og námsmannaíbúða. Fyrir átta árum voru 15,4% íslenskra heimila í leiguhúsnæði en árið 2013 var hlutfallið komið uppí 24,9%. Það er fjórða hvert heimili.

Þessi fjölgun á leigumarkaði leiðir eðlilega af sér aukna eftirspurn eftir leiguhúsnæði, sem svo leiðir til hækkunar leiguverðs. Þar sem löng bið er eftir félagslegu húsnæði hefur hlutfall lágtekjufólks á almennum leigumarkaði farið ört vaxandi og byrði húsnæðiskostnaðar þess hóps er því orðin þyngri en gengur og gerist hjá fjölskyldum sem hafa meira milli handanna. Rúmlega 63% þeirra sem fá húsnæðisbætur í dag eru heimili með tekjur undir 3 milljónum á ári, eða 250 þúsund krónur á mánuði. Sem samfélagi ber okkur skylda til að létta undir með þeim heimilum.

1,1 milljarður í aukinn húsnæðisstuðning 

Í haust mun Alþingi taka fyrir breytingar á húsnæðisbótum og í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir að húsnæðisstuðningur hækki um 1,1 milljarð króna á næsta ári.

Við viljum hækka grunnfjárhæð húsnæðisbóta, hækka frítekjumarkið, hækka hámarkshlutfall af leiguverðinu og miða stuðninginn við fjölda einstaklinga á heimili, í stað fjölskyldugerðar eins og hefur verið. Þannig er tekið tillit til aukins húsnæðiskostnaðar eftir því sem fleiri eru í heimili.

Markmið þessara breytinga er að lækka húsnæðiskostnað efnaminni leigjenda og tryggja öryggi í húsnæðismálum í samræmi við þarfir hvers og eins.

Lægri skattbyrði af leigutekjum 

Auk þess að hækka húsnæðisstuðninginn er litið til þess að lækka skattbyrði leigutekna úr 14% niður í 10%. Markmiðið með þessum breytingum er að hvetja til langtímaleigu íbúðarhúsnæðis og að fasteignaeigendur sjái hag sinn í því að gera langtímaleigusamninga, en hætta er á að skammtímaleiga húsnæðis, til dæmis til ferðamanna, dragi úr framboði á leiguhúsnæði til langs tíma og þrýsti þar með upp leiguverði. Þannig aukum við framboð og öryggi leigjenda með framtíðarhúsnæði í huga.

Framsókn notaði slagorðið »Framsókn fyrir heimilin« í síðustu kosningum og ekki að ástæðulausu. Okkar áhersla er og verður á heimilin í landinu.

Jóhanna María Sigmundsdóttir og Silja Dögg Gunnarsdóttir

Greinin birtist í Morgunblaðinu 28. september 2015.