Ég átti fyrir skömmu fund með írskum meistaranemum í stjórnmálafræði. Þau voru m.a. að velta fyrir sér hvort ESB þætti innganga Íslands í sambandið eftirsóknarverð. Nemarnir veltu líka upp þeirri spurningu hvort það hefði ekki grafið undan trúverðuleika Íslands að sækja um aðild að ESB þar sem þing og þjóð voru frá upphafi klofin í afstöðu sinni. Og síðast en ekki síst, hvort íslensk stjórnvöld ætli að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu á næstunni um ESB. Eftirfarandi línur endurspegla umræður okkar…
Land tækifæranna
Já, Ísland er eftirsóknarvert land. Vatn, orka og matur eru það sem þjóðir heims þurfa til framtíðar og lega landsins er eftirsóknarverð m.a. vegna aðgangs að Norðurskautinu. Berum nú saman stöðu Evrópusambandsins og stöðu Íslands í dag. Á Íslandi er ágætur hagvöxtur og lítið atvinnuleysi. Svo er ekki í ESB. Árangur Íslands og endurreisn efnahagslífsins hér hefur vakið eftirtekt á heimsvísu þó svo að ýmis verkefni séu enn óleyst. Staðan var allt önnur árið 2009. Hvers vegna ættu Íslendingar að vilja ganga inn í Evrópusambandið nú? Vilja menn kannski bara fá að sjá hinn „meinta samning“?
Innihald pakkans
Á bls. 32 í skýrslu Hagfræðistofnunar HÍ er fjallað um skilyrði fyrir aðild þar stendur m.a.: „Þau lönd sem óska eftir aðild að Evrópusambandinu gangast undir ákveðin grundvallarskilyrði. Í meginatriðum snúast þau um að aðildarríki samþykki sáttmála Evrópusambandsins, markmið þeirra og stefnu og þær ákvarðanir sem teknar hafa verið þeir öðluðust gildi. Gengið er út frá því að umsóknarríki sækist eftir aðild. Þá leiðir innkoma nýs ríkis ekki til þess að nýtt samband verði til auk þess sem umsóknarríki ber að samþykkja réttarreglur sambandsins (fr. acquis comunitare). Þá er umbreytingarfrestur takmarkaður og felur ekki í sér undanþágu frá grunnsáttmálum og meginreglum sambandsins. Þá er að lokum gerð krafa um skilyrði fyrir inngöngu.“
Þetta er það aðildarferli sem Ísland gekk inn í þegar það sótti um aðild árið 2009. Í sömu skýrslu á bls. 37 stendur: „Almennt má segja að stækkunarferlið sem Ísland gekk inn í einkennist af auknum skilyrðum fyrir inngöngu, sé miðað við það sem áður tíðkaðist. Þrátt fyrir bjartsýni um annað virðist hafa verið lítil ástæða til að ætla að Ísland fengi aðra meðferð í umsóknarferli en þau önnur lönd sem voru að sækja um aðild á sama tíma.“
Þetta sýnir okkur svart á hvítu að ekki er um samningaviðræður að ræða. Við munum ekki fá neina sérmeðferð ef við göngum í ríkjasamband Evrópuþjóða.
Heiðarlegt gagnvart ESB
Ákvörðun utanríkisráðherra um að senda ESB formlegt bréf um að Ísland væri ekki umsóknarríki lengur, var hárrétt og heiðarleg. Stjórnarflokkarnir eru báðir með þá yfirlýstu stefnu að ganga ekki inn í ESB og meirihluti þings styður ekki inngöngu í ESB. ESB hefur lengi óskað eftir skýru svari frá íslenskum stjórnvöldum og þessi niðurstaða nú var fengin í samráði við ESB. Lögfræðilegt álit frá 2013 liggur fyrir að þing er ekki bundið af þingsályktun annarrar ríkisstjórnar. Þingið fjallaði um ESB-málið dögum saman á síðasta vorþingi. Tvær skýrslur voru gefnar út. Utanríkismálanefnd þingsins hefur frá upphafi vitað hver stefna ríkisstjórnarinnar er og eitt af fyrstu verkum ráðherra í embætti var að leysa samninganefndirnar upp og stöðva aðlögunarferlið. Stækkunarstjóri ESB hefur í millitíðinni lýst því yfir að ekki standi til að taka fleiri þjóðir í sambandið a.m.k. næstu fimm árin. Formlegt bréf utanríkisráðherra nú til ESB á því ekki að koma neinum á óvart.
Ómöguleikinn
Næsta spurning er þá hvort ríkisstjórnin muni efna til þjóðaratkvæðagreiðslu. Svarið er nei. Ríkisstjórnin hefur engin áform uppi um að efna til þjóðatkvæðis um viðræður við Evrópusambandið, þar sem slíkt væri atkvæðagreiðsla um mál sem hún er mótfallin. Komi til þess að hefja ætti aðildarferlið að nýju telur núverandi ríkisstjórn mikilvægt að það sé ekki gert án þess að spyrja þjóðina fyrst hvort hún vilji gerast aðili að ESB.
Skýr stefna
Hvers vegna mátti málið ekki liggja óhreyft? Það er vegna þess að það hefur gildi í utanríkismálum að vera eitt af umsóknarríkjum ESB. Stefna núverandi ríkisstjórnar er að efla alþjóðlegt samstarf enn frekar m.a. með gerð fríverslunarsamninga og við erum einnig aðilar að Norðurskautsráði. Það að vera umsóknarríki ESB grefur undan stöðu okkar og tækifærum. Það hefði e.t.v. verið „þægilegra“ að láta ESB-málið liggja en stjórnmál eiga ekki að snúast um þægindi. Þau snúast um að taka ákvarðanir, framfylgja yfirlýstri stefnu, sannfæringu sinni, og koma heiðarlega fram við samstarfsaðila og þjóðina. Það hefur núverandi ríkisstjórn nú gert.
Silja Dögg Gunnarsdóttir
Greinin birtist í DV 17. mars 2015
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.