Land er og hefur verið auðlind í augum Íslendinga frá upphafi byggðar og bera margar af Íslendingasögunum þess merki að barátta um land og eignarhald á því hafi verið einn af meginásteytingssteinum í gegnum sögu okkar. Þá ber Jónsbók þess merki að Íslendingar hafi frá fyrstu tíð haft metnað til þess að ramma skýrt inn réttindi jarða og landeigenda. Þetta endurspeglar vel þá stöðu sem land og auðlindir þess hafa fyrir almenning á Íslandi og nauðsyn þess að um það sé staðinn vörður. En jarðeignir og land eru ekki bara mæld í hekturum eða fermetrum, því landi fylgja oft ríkuleg hlunnindi og auðlindir. Þar má meðal annars nefna vatns- og malarréttindi, veiðihlunnindi, dún- og eggjatekju ásamt reka. Ekki síst eru ekki upptaldar þær auðlindir sem felast í góðu ræktar- og beitilandi sem er ómetanlegt fyrir framtíð búskapar á Íslandi sem er forsenda matvælaöryggis þjóðarinnar og órjúfanlegur hluti menningar okkar og sögu sem þjóðar.
Með manni og mús
Bújarðir og land almennt hefur ríkulegt gildi fyrir íslenska þjóð. Landið með sínum auðlindum er grundvöllur búsetu og atvinnu víða á landsbyggðinni. Það er því alláhugavert að fylgjast með þeirri þróun sem hefur átt sér stað á undanförnum árum þar sem jarðir hafa verið keyptar upp í stórum stíl, jafnvel heilu dalirnir, með hurðum og gluggum. Skapast hefur mikil umræða í kjölfar uppkaupa bresks auðmanns á jörðum í Vopnafirði og Norður-Þingeyjarsýslu, þar sem búið er að kaupa upp allt að því heilu laxveiðiárnar og vatnasvæði þeirra. Hefur því eðlilega fylgt mikil gagnrýni á lagasetningu og þann ramma sem skapaður hefur verið vegna jarðakaupa á Íslandi í kjölfar breytinga á jarðalögunum sem gerð voru í upphafi þessarar aldar. Þá hefur hluti af gagnrýni þeirri sem komið hefur fram vegna innleiðingar orkupakka þrjú, hér á landi, einnig snúið að eignarhaldi á auðlindum og vatnsréttindum á Íslandi. Það er réttmæt gagnrýni sem hlusta þarf á vegna þess að sagan hér á Íslandi og nágrannalöndum okkar kennir okkur það að fjármagn leitar sér farvegs þar sem um miklar og öflugar auðlindir er að ræða og þar eru ekki alltaf hagsmunir heildarinnar hafðir að leiðarljósi, því miður.
Styrkja þarf rammann strax
Nauðsynlegt er því í þessu ljósi að fara að styrkja þær stoðir sem snúa að lagasetningu vegna bújarða og slíkt getur ekki lengur beðið í tæknilegum öngstrætum stjórnsýslunnar eins og verið hefur síðustu ár. Jarðalögum þarf að breyta þannig að hægt sé að setja ákveðnar reglur varðandi eignarhald á jörðum og að ekki sé hægt að selja auðlindir okkar úr landi. Frændþjóðir okkar hafa stigið slík skref þannig að fordæmin eru til þannig að nú verða verkin að tala á löggjafarþingi þjóðarinnar þegar það kemur saman á haustdögum. Slíkt þolir enga bið. Ekki er heldur eðlilegt að búið sé að rýra byggðir víða um land með þeim hætti að sveitarfélög hafa misst stóran hluta útsvarstekna sinna vegna þess að stór hluti jarðanna er í eigu fólks sem býr í öðrum sveitarfélögum eða erlendis og borgar því ekki skatta í viðkomandi sveitarfélagi. Þá um leið er líka búið að kippa undan heilu samfélögunum grundvelli þess að byggð þar haldist áfram og samhjálparhugsjónin sem sveitir þurfa á að halda getur ekki þrifist vegna fámennis.
Það er ekki síst brýnt nú á tímum að við hyggjum að arfleifð okkar og því sem við ætlum að skila til komandi kynslóða. Ábyrgðin er okkar að tryggja að land sé í eigu þeirra sem landið ætla að byggja og nýta til framtíðar og það fylgi því ýmsar skyldur að eiga land. Það er óviðunandi að heilu sveitirnar á Íslandi séu með lögheimili í London.
Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar og ritari Framsóknarflokksins.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 18. júlí 2019.