Categories
Fréttir

Fleiri kæra ákvörðun Skipulagsstofnunar

Deila grein

17/07/2019

Fleiri kæra ákvörðun Skipulagsstofnunar

Elsa Lára Arnardóttir, formaður bæjarráðs Akraness, greinir frá því að fleiri sveitarfélög á Vesturlandi en Akranes hafi kært ákvörðun Skipulagsstofnunar um að breikkun Vesturlandsvegar í 2+1 veg sé háð mati á umhverfisáhrifum í yfirlýsingu í gær.
„Nú hafa sveitarfélögin Borgarbyggð, Dalabyggð, Eyja- og Miklaholtshreppur, Helgafellssveit, Hvalfjarðarsveit, Skorradalshreppur, Snæfellsbær og Stykkishólmsbær jafnframt kært ákvörðunina með sömu forsendum og við á Akranesi,“ segir Elsa Lára.
En fram hefur komið að Akranes og íbúar þess hafa lögvarinna hagsmuna að gæta þegar kemur að umferðaröryggi íbúa og að framkvæmdinni sé hraðað en Akraneskaupstað er umhugað um að ekki verði fleiri slys á umræddri leið segir m.a. í yfirlýsingu frá fundinum. „Bæjarráð Akraness hefur falið bæjarstjóra að kæra ákvörðun Skipulagsstofnunar um að breikkun Vesturlandsvegar í 2+1 veg sé háð mati á umhverfisáhrifum.“ En það er mat bæjarráðs Akraness að ákvörðun Skipulagsstofnunar sé háð verulegum annmörkum, sé byggð á röngum forsendum og sé í ósamræmi við fyrri ákvarðanir og beri að ógilda. Ekki sé um að ræða nýjan veg heldur breikkun vegarins í 2+1 ásamt hliðarvegum, hringtorgum og göngu-, hjóla- og reiðstígum. Land sem raskast við framkvæmdina hefur þegar orðið fyrir röskun vegna þess vegar sem nú liggur um svæðið.

Jafnframt hefur komið fram að það sé verulegt ósamræmi við fyrri ákvarðanir Skipulagsstofnunar um matsskyldu sambærilegra framkvæmda og ef breyta ætti stjórnsýsluframkvæmd þá þurfi að rökstyðja það sem ekki er gert. Ósamræmi er við ákvarðanir Skipulagsstofnunar er varða t.d. endurbætur á Þingvallavegi, breytingar á Kjalvegi og breikkun Grindavíkurvegar. Óskiljanlegt er hvers vegna önnur sjónarmið eru látin ráða för við ákvörðun um matsskyldu breikkunar Vesturlandsvegar.
Þegar hefur Vegagerðin einnig ákveðið að kæra ákvörðun Skipulagsstofnunar um að fyrirhuguð breikkun Vesturlandsvegar um Kjalarnes skuli háð mati á umhverfisáhrifum.
Í yfirlýsingu Vegagerðarinnar segir að áformað sé að breikka um 9 kílómetra kafla Vesturlandsvegar á milli Varmhóla og vegamóta við Hvalfjarðarveg. Um er að ræða breikkun vegarins í 2+1 veg ásamt hliðarvegum, hringtorgum og göngu-, hjóla- og reiðstígum. Yfirlýst markmið framkvæmdanna er að breikka Vesturlandsveg til að auka umferðaröryggi, greiða fyrir umferð og fækka vegtengingum.
„Ákvörðunin eins og hún er fram sett getur að mati Vegagerðarinnar valdið vafa um hvernig meðhöndla eigi aðrar slíkar framkvæmdir með tilliti til mats á umhverfisáhrifum. Vegagerðin mun samhliða flýta undirbúningi verkefnisins eins og kostur er þannig að framkvæmdir tefjist sem allra minnst,“ segir í yfirlýsingu Vegagerðarinnar.