Categories
Greinar

Með lögum skal land tryggja

Deila grein

18/07/2019

Með lögum skal land tryggja

Land er og hef­ur verið auðlind í aug­um Íslend­inga frá upp­hafi byggðar og bera marg­ar af Íslend­inga­sög­un­um þess merki að bar­átta um land og eign­ar­hald á því hafi verið einn af megin­á­steyt­ings­stein­um í gegn­um sögu okk­ar. Þá ber Jóns­bók þess merki að Íslend­ing­ar hafi frá fyrstu tíð haft metnað til þess að ramma skýrt inn rétt­indi jarða og land­eig­enda. Þetta end­ur­spegl­ar vel þá stöðu sem land og auðlind­ir þess hafa fyr­ir al­menn­ing á Íslandi og nauðsyn þess að um það sé staðinn vörður. En jarðeign­ir og land eru ekki bara mæld í hekt­ur­um eða fer­metr­um, því landi fylgja oft ríku­leg hlunn­indi og auðlind­ir. Þar má meðal ann­ars nefna vatns- og mal­ar­rétt­indi, veiðihlunn­indi, dún- og eggja­tekju ásamt reka. Ekki síst eru ekki upp­tald­ar þær auðlind­ir sem fel­ast í góðu rækt­ar- og beitilandi sem er ómet­an­legt fyr­ir framtíð bú­skap­ar á Íslandi sem er for­senda mat­væla­ör­ygg­is þjóðar­inn­ar og órjúf­an­leg­ur hluti menn­ing­ar okk­ar og sögu sem þjóðar.

Með manni og mús

Búj­arðir og land al­mennt hef­ur ríku­legt gildi fyr­ir ís­lenska þjóð. Landið með sín­um auðlind­um er grund­völl­ur bú­setu og at­vinnu víða á lands­byggðinni. Það er því allá­huga­vert að fylgj­ast með þeirri þróun sem hef­ur átt sér stað á und­an­förn­um árum þar sem jarðir hafa verið keypt­ar upp í stór­um stíl, jafn­vel heilu dal­irn­ir, með hurðum og glugg­um. Skap­ast hef­ur mik­il umræða í kjöl­far upp­kaupa bresks auðmanns á jörðum í Vopnafirði og Norður-Þing­eyj­ar­sýslu, þar sem búið er að kaupa upp allt að því heilu laxveiðiárn­ar og vatna­svæði þeirra. Hef­ur því eðli­lega fylgt mik­il gagn­rýni á laga­setn­ingu og þann ramma sem skapaður hef­ur verið vegna jarðakaupa á Íslandi í kjöl­far breyt­inga á jarðalög­un­um sem gerð voru í upp­hafi þess­ar­ar ald­ar. Þá hef­ur hluti af gagn­rýni þeirri sem komið hef­ur fram vegna inn­leiðing­ar orkupakka þrjú, hér á landi, einnig snúið að eign­ar­haldi á auðlind­um og vatns­rétt­ind­um á Íslandi. Það er rétt­mæt gagn­rýni sem hlusta þarf á vegna þess að sag­an hér á Íslandi og ná­granna­lönd­um okk­ar kenn­ir okk­ur það að fjár­magn leit­ar sér far­vegs þar sem um mikl­ar og öfl­ug­ar auðlind­ir er að ræða og þar eru ekki alltaf hags­mun­ir heild­ar­inn­ar hafðir að leiðarljósi, því miður.

Styrkja þarf ramm­ann strax

Nauðsyn­legt er því í þessu ljósi að fara að styrkja þær stoðir sem snúa að laga­setn­ingu vegna búj­arða og slíkt get­ur ekki leng­ur beðið í tækni­leg­um öngstræt­um stjórn­sýsl­unn­ar eins og verið hef­ur síðustu ár. Jarðalög­um þarf að breyta þannig að hægt sé að setja ákveðnar regl­ur varðandi eign­ar­hald á jörðum og að ekki sé hægt að selja auðlind­ir okk­ar úr landi. Frændþjóðir okk­ar hafa stigið slík skref þannig að for­dæm­in eru til þannig að nú verða verk­in að tala á lög­gjaf­arþingi þjóðar­inn­ar þegar það kem­ur sam­an á haust­dög­um. Slíkt þolir enga bið. Ekki er held­ur eðli­legt að búið sé að rýra byggðir víða um land með þeim hætti að sveit­ar­fé­lög hafa misst stór­an hluta út­svar­stekna sinna vegna þess að stór hluti jarðanna er í eigu fólks sem býr í öðrum sveit­ar­fé­lög­um eða er­lend­is og borg­ar því ekki skatta í viðkom­andi sveit­ar­fé­lagi. Þá um leið er líka búið að kippa und­an heilu sam­fé­lög­un­um grund­velli þess að byggð þar hald­ist áfram og sam­hjálp­ar­hug­sjón­in sem sveit­ir þurfa á að halda get­ur ekki þrif­ist vegna fá­menn­is.

Það er ekki síst brýnt nú á tím­um að við hyggj­um að arf­leifð okk­ar og því sem við ætl­um að skila til kom­andi kyn­slóða. Ábyrgðin er okk­ar að tryggja að land sé í eigu þeirra sem landið ætla að byggja og nýta til framtíðar og það fylgi því ýms­ar skyld­ur að eiga land. Það er óviðun­andi að heilu sveit­irn­ar á Íslandi séu með lög­heim­ili í London.

Jón Björn Hákonarson, for­seti bæj­ar­stjórn­ar Fjarðabyggðar og rit­ari Fram­sókn­ar­flokks­ins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 18. júlí 2019.