Viðbrögð þjóða heims munu ráða mestu um það hverjar varanlegar afleiðingar Covid-19 faraldursins verða. Ástandið hefur sannarlega þjappað þjóðum saman en það er afar brýnt að stjórnvöld haldi vöku sinni gagnvart samfélagshættunni sem blasir við. Þjóðfélagshópar eru misvel búnir undir höggið sem hlýst af ástandinu. Atvinnuleysi er misskipt eftir atvinnugreinum og landsvæðum. Þeir sem búa við þröngan kost eru líklegri til að upplifa mikið álag á heimilum en þeir sem búa rúmt. Það blasir því við að félags- og efnahagslegar afleiðingar faraldursins geta aukið misréttið í samfélaginu til frambúðar. Það má ekki gerast!
Þetta hefur verið leiðarljósið í vinnu stjórnvalda fyrir námsmenn. Ráðist hefur verið í margvíslegar aðgerðir sem miða að því að létta námsmönnum róðurinn í efnahagslegum ólgusjó, en margir þeirra upplifa nú mikið álag og áhyggjur af framfærslu. Ýmsar tilslakanir hafa verið gerðar hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Framhalds- og háskólarnir hafa lagað námsmat að aðstæðunum og aukið ráðgjöf og þjónustu við nemendur. Stjórnvöld hafa boðað þúsundir sumarstarfa fyrir námsmenn og skólarnir bjóða upp á sumarnám til að koma til móts við nemendur sem vilja nýta þann möguleika.
Þá hefur auknu fjármagni verið veitt í Nýsköpunarsjóð námsmanna, sem úthlutaði nýverið styrkjum til 74 fjölbreyttra verkefna. Þessi verkefni eru skemmtileg og spennandi – allt frá snertihlustun og sjóveikihermi til framtíðarskóga – og breiddin til marks um fjölbreytileika íslenska menntakerfisins og nýsköpunarkraft stúdenta. Nýsköpunarverkefni sem komast á laggirnar fyrir tilstuðlan sjóðsins geta borið ríkan ávöxt og breyst í stærri og viðameiri tækifæri fyrir námsmenn, fyrirtæki og stofnanir. Þannig er sjóðurinn mikilvæg brú fyrir atvinnulífið og vísindasamfélagið.
Íslenskir námsmenn eru vanir því að takast á við krefjandi verkefni og leysa úr þeim. Þeir skila verkefnum, skrifa ritgerðir, rannsaka samfélagið og skapa eitthvað nýtt. Þeir standa saman þegar á reynir en fagna líka saman við kærkomin tilefni, svo sem útskriftir. Þeir eru framtíð þessa lands og er fjölbreytileiki og færni þeirra öðrum innblástur. Einmitt þess vegna er öflugt menntakerfi svo mikilvægt. Menntakerfi sem ræktar sköpunargáfu námsmanna, skapar jöfn tækifæri fyrir ungt fólk og gegnir þannig jöfnunarhlutverki í samfélaginu. Nauðsyn þess að fólk geti sótt sér menntun óháð bakgrunni eða efnahag hefur á síðari tímum sjaldan verið brýnni en nú. Kostnaðurinn af slíkum markmiðum er umtalsverður en þó margfalt minni en kostnaðurinn sem hlýst af ójafnrétti og misskiptingu. Fáfræði sem hlýst af kerfi misskiptingar er skaðleg, bæði fyrir efnahag samfélaga, lífsgæði og lýðræði.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. maí 2020.