Categories
Greinar

Lærdómssamfélagið

Deila grein

12/05/2020

Lærdómssamfélagið

Skólafólk lyfti grettistaki þegar takmarkanir á skólastarfi komu til framkvæmda snemma í mars. Kennarar og stjórnendur þurftu á augabragði að umbylta öllu skólastarfi og koma til móts við nemendur, svo námsframvindan yrði fyrir sem minnstum skaða. Skólar brugðust ólíkt við eftir aðstæðum, og færðu sig mismikið yfir í rafræna kennslu og samskipti. Alls staðar voru þó stigin stór þróunarskref, sem skólarnir geta nýtt sér þegar kórónutímabilinu lýkur.

Rafræn samskipti hafa þróast hratt síðustu misseri. Mikill ávinningur felst í því fyrir samfélagið allt að nýta tæknina. Samvinna getur orðið skilvirkari og þátttakendur virðast oft einbeittari, fólk virðist frekar mæta á réttum tíma á fjarfundi en hefðbundna, pappír sparast og umferð minnkar, svo dæmi séu nefnd. Öllum er ljóst, að aukið tæknilæsi skapar grundvöll fyrir margbreytilegar tæknilausnir.

Ekkert kemur þó í stað beinna samskipta milli nemenda, kennara og annars starfsfólks skólanna. Góðir kennarar og skólastjórnendur eru ómetanlegir. Skólasamfélagið á hverjum stað er einkar mikilvægt fyrir félagslegan þroska, geðheilbrigði, færni í samskiptum og almennt nám. Skólinn er vettvangur barna til að hitta og spegla sig í jafningjum sínum og starfsfólki. Þetta á ekki síst við þá sem standa höllum fæti og líklega muna flestir eftir góðum kennara sem hafði varanlega góð áhrif á líf þeirra. Þess vegna er skólasamfélagið, með sinni mannlegu nánd og tengsl í fyrirrúmi, eitt af því dýrmætasta sem íslenskt menntakerfi á.

Tækniþróun og iðnbyltingar munu ekki leysa kennarann af hólmi. Skólastarf byggir á öflugu lærdómssamfélagi þar sem skólafólk, nemendur og foreldrar mynda jákvæða og uppbyggilega menningu. Það er ástæða til að fagna auknu tæknilæsi, sem styður við jákvætt og uppbyggilegt skólastarf á öllum skólastigum. Kennarar og skólastjórnendur halda áfram mikilvægi sínu, því eitt af því sem kemur fram hjá nemendum á COVID-tímum er söknuður í lærdómssamfélagið.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 12. maí 2020.