Categories
Forsíðuborði Greinar

Menntun í öndvegi

Deila grein

06/01/2018

Menntun í öndvegi

Öflugt menntakerfi er forsenda framfara og leggur grunninn að áframhaldandi velsæld þjóðarinnar. Í sáttmála ríkisstjórnarinnar er boðað til stórsóknar í menntamálum þar sem skapandi og gagnrýnin hugsun, læsi og þátttaka í lýðræðissamfélagi verður áfram undirstaða íslenska skólakerfisins. Í fjárlögum þessa árs má sjá skýr merki þess að sóknin sé hafin og munu nemendur og starfsfólk skólanna verða vör við á komandi misserum.

Yfir 4 milljarða hækkun milli ára
Fjárveitingar til framhalds- og háskólastigsins hækka um tæpa 4,2 milljarða króna miðað við fjárlög 2017 eða um 5,8%. Það er veruleg og kærkomin innspýting í báða málaflokka. Aukin framlög til menntamála bæta samkeppnishæfni þjóðarinnar til lengri tíma litið og styðja við uppbyggingu fjölbreyttara hagkerfis. Ísland er auðlindadrifið hagkerfi og því er mikilvægt að renna fleiri stoðum undir það, stoðum sem byggjast á hugviti og nýsköpun. Nýsköpun á sér stað í öllum atvinnugreinum og er drifin áfram af færni, þekkingu og getu til þess að þróa nýjar hugmyndir og hrinda þeim í framkvæmd. Skólakerfið þarf að taka mið af þessu og undirbúa nemendur fyrir að leysa flókin viðfangsefni. Þannig gerum við Ísland að gildandi þátttakanda í þeirri tækniþróun sem á sér stað um heim allan og hefur áhrif á daglegt líf fólks.

Tökum á brotthvarfi
Um 18.000 nemendur stunda nám við rúmlega 30 framhaldsskóla um land allt. Ríkisstjórnin vill tryggja framhaldsskólum frelsi og fjármagn til eigin stefnumótunar innan ramma framhaldsskólalaga. Framlög til þessara stofnana hækka um 1.290 milljónir króna miðað við fjárlög 2017, eða 4,4%. Okkur er full alvara með því að efla framhaldsskólastigið og með auknum fjárveitingum er lögð meiri áhersla á að ná markmiðum um fjármögnun framhaldsskólastigins og takast á við þær áskoranir sem helst er við að etja eins og brotthvarf úr námi. Þannig rennur aukningin að stórum hluta í að auka þjónustu við nemendur sem búa yfir lítilli hæfni í íslensku og stærðfræði við lok grunnskóla og til þess að hækka hlutfall þeirra sem ljúka námi til stúdentsprófs á tilsettum tíma í 60% á árinu 2018. Í mennta- og menningarmálaráðuneytinu er þegar hafin vinna við kortlagningu framhaldsskólakerfisins og ítarlega greiningu á stöðu og þróun framhaldsskólanna. Þá verður unnin aðgerðaráætlun til að sporna enn frekar gegn brotthvarfi.

Öflugra háskólastig
Hver króna sem sett er í háskólastigið skilar sér áttfalt til baka. Því leggur ríkisstjórnin mikla áherslu á að efla háskólastigið og að fjármögnun þess nái meðaltali OECD-ríkjanna fyrir árið 2020 og Norðurlandanna árið 2025 í samræmi við áætlanir vísinda- og tækniráðs. Mikilvægt skref í þessa átt er stigið í fjárlögum ársins 2018 þar sem framlög til háskólastigsins eru aukin um tæpa 2,9 milljarða eða 6,9% miðað við fjárlög 2017. Með þessari hækkun er ætlunin að efla bæði kennslu og rannsóknir svo bæta megi þjónustu við nemendur og styrkja alþjóðlegt samstarf. Ég get glöð tekið undir það sem kom fram í bókun háskólaráðs Háskóla Íslands um að hér sé stigið áþreifanlegt skref í átt að sambærilegri fjármögnun Háskóla Íslands og háskóla annars staðar á Norðurlöndum. Þannig er stuðlað að því að háskólar á Íslandi standi jafnfætis nágrannaríkjunum að gæðum háskólamenntunar og rannsókna. Framlög til rannsókna eru einmitt aukin með 136 m.kr hækkun til rannsóknarstofnanna á háskólastigi eða 11,8%, með 390 m.kr aukningu í Aldarafmælissjóð Háskóla Íslands en það jafngildir tæplega 56% hækkun. Markmið með þeim sjóði er að efla rannsóknir og nýsköpun sem munu efla atvinnulífið og auka verðmætasköpun fyrir þjóðarbúið.

Listaháskólinn kominn á dagskrá
Liður í því að styðja við hugverkadrifið og skapandi hagkerfi er að hlúa að listum og öðrum skapandi greinum. Listaháskóli Íslands gegnir mikilvægu hlutverki í að varða þá leið og mennta nemendur í listskapandi greinum. Á þessu ári munu framlög til skólans hækka um tæpar 73 m.kr eða 6,7%. Er hækkuninni m.a. ætlað að efla rannsóknarstarf við skólann og koma til móts við bráðavanda skólans í húsnæðismálum. Að auki verður 30 m.kr varið til þarfagreiningar og hönnunarsamkeppni um nýtt hús fyrir Listaháskólann. Í dag er skólinn í fimm mismunandi byggingum í borginni og er ástand þeirra misgott. Það er því ánægjulegt en ekki síður mikilvægt að unnið sé að varanlegri lausn sem mun efla skólann til framtíðar.

Stórsókn í menntamálum
Ríkisstjórnin hefur hafið stórsókn í menntamálum líkt og ofangreind yfirferð sýnir svart á hvítu. Á yfirstandandi kjörtímabili verða fleiri skref stigin til þess að efla menntun í landinu. Þessi vinna mun skila sér í öflugra samfélagi og betri lífskjörum fyrir þjóðina. Ég hlakka því til að leiða þá vinnu í samstarfi við hagsmunaaðila menntakerfisins. Tækifærin eru fjölmörg, það er okkar að nýta þau.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra

Greinin birtist í Morgunblaðinu 6. janúar 2017.