Categories
Greinar

Mikil skuldabyrði heimila hægir á efnahagsbata

Deila grein

27/11/2014

Mikil skuldabyrði heimila hægir á efnahagsbata

frosti_SRGB_fyrir_vefWillum Þór ÞórssonÍ skýrslu AGS frá 2012 um horfur í heimsbúskapnum var Ísland í hópi ríkja þar sem skuldabyrði heimilanna var einna mest. Hlutfall skulda íslenskra heimilanna náði 133% af vergri landsframleiðslu (VLF) árið 2010. Að mati AGS getur mikil skuldsetning heimila bæði dýpkað niðursveiflur í hagkerfi þjóða og hægt á efnahagsbata. Það sé því mikilvægt að draga úr skuldsetningu.

Skuldastaða íslenskra heimila fer batnandi
Skuldastaða heimilanna hefur farið batnandi frá 2010, ekki síst vegna gengislánadóma, 110% leiðar bankanna og heimilin hafa lagt kapp á að greiða upp skuldir og dregið úr neyslu. Eftir að höfuðstólslækkun verðtryggðra lána og séreignarsparnaðarleið hefur nýst að fullu er útlit fyrir að heildarskuldir íslenskra heimila verði komnar í 90% af VLF og húsnæðislán í rúm 60% af VLF. Með leiðréttingunni mun eiginfjárstaða 54 þúsund heimila styrkjast og um fjögur þúsund aðilar færast úr því að eiga minna en ekki neitt yfir í að eiga jákvætt eigið fé í fasteignum sínum. Þótt þetta sé mikil framför er skuldsetning íslenskra heimila eftir sem áður hærri en góðu hófi gegnir.

Lægri skuldsetning heimila eykur stöðugleika og hagvöxt
Eftir því sem skuldsetning heimila er meiri því líklegra er að efnahagsáföll þjóðarbúsins verði meiri og afturbatinn hægari. Þetta kemur fram í skýrslu AGS frá 2012 um efnahagshorfur í heiminum og er byggt á greiningu á hagtölum frá fjölda ríkja undanfarna þrjá áratugi. Í sömu skýrslu kemur fram sú skoðun að djarfar efnahagsaðgerðir til lækkunar á skuldum heimila geti flýtt umtalsvert fyrir því að hagkerfi rétti úr kútnum eftir áföll. Það er ekki tilviljun að bæði í aðdraganda kreppunar miklu í Bandaríkjunum 1930 og fjármálakreppunar 2008, höfðu skuldir heimila farið hraðvaxandi.

Skuldavandi víðar en á Íslandi
Á meðan skuldir íslenskra heimila hafa farið lækkandi, hafa skuldir heimila í ríkjum sem við berum okkur gjarnan saman við, ýmist staðið í stað eða hækkað. Í Noregi og Sviss hafa skuldir heimila vaxið, en staðið í stað í Danmörku og Hollandi. Skuldir heimila í Hollandi námu í árslok 2012 um 127% af VLF.

Á Íslandi er nú spáð góðum hagvexti og minnkandi atvinnuleysi á meðan útlit er fyrir slakan hagvöxt og viðvarandi atvinnuleysi í mörgum evrópuríkjum, ekki síst þeim ríkjum sem búa við evruna. Í Bandaríkjunum hefur skuldsetning heimila hins vegar farið minnkandi og hagvöxtur farið vaxandi.

Góðar horfur fyrir íslensk heimili
Hagvöxtur næstu ára mun halda áfram að bæta lífskjör hér á landi svo um munar. Það mun veita heimilunum mikilvægt tækifæri til að draga enn frekar úr skuldsetningu sinni. Leiðréttingin er mikilvæg efnahagsaðgerð sem eflir viðnámsþrótt hagkerfisins, eykur hagvöxt og bætir þannig lífskjör almennt í landinu.

Frosti Sigurjónsson og Willum Þór Þórsson

Greinin birtist í Viðskiptablaðinu 20. nóvember 2014

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.