Þau ánægjulegu tíðindi komu frá Alþingi í vikunni að búið væri að samþykkja tillögu ríkisstjórnarinnar að tillögu til þingsályktunar um stefnumótun í málefnum sveitarfélaga. Stefnumótunin, sem er hin fyrsta sinnar tegundar á Íslandi, hefur verið lengi í undirbúningi og víðtækt samráð farið fram um allt land. Á aukalandsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga í haust var samþykkt með afgerandi meirihluta að lýsa yfir stuðningi við tillöguna og þá framtíðarsýn og áherslur sem í henni felast.
Vissulega eru skiptar skoðanir um einstakar aðgerðir, ekki síst varðandi ákvæði um lágmarksfjölda íbúa, sem verður 250 frá almennum sveitarstjórnarkosningum 2022 og 1.000 fjórum árum síðar. Sum minni sveitarfélög hafa sett fyrirvara og lagt áherslu á að vilji íbúa eigi að ráða för. Það kom t.d. mjög vel fram á fjölmennum íbúafundi sem ég sótti á Grenivík í vikunni. Þar hefur byggst upp blómlegt samfélag þar sem íbúar njóta góðrar þjónustu og búa við atvinnuöryggi. Það eru ýmsar leiðir til að tryggja að svo verði en umfram allt er það að mestu í höndum íbúanna sjálfra.
Stefnumörkuninni er að sjálfsögðu ekki beint gegn einstökum sveitarfélögum heldur felur hún í sér heildarsýn fyrir allt landið um eflingu sveitarstjórnarstigsins með ýmsum aðgerðum. Það stendur ekki til að sameina samfélög eða byggðarlög – þau verða áfram til og vonandi blómleg og fjölbreytt. Sveitarfélög hafa síðan góðan tíma til að ákveða á lýðræðislegan hátt hvernig lágmarksviðmiðum verður náð og því fylgir mikill fjárhagslegur stuðningur úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.
Ég tel þessa stefnumörkun vera eitt mesta umbótaverkefni í opinberri stjórnsýslu sem um getur. Stjórnsýsla sveitarfélaga eflist, tækifæri skapast til að bæta þjónustu og geta þeirra til að berjast fyrir hagsmunamálum íbúanna eykst. Nýtt og öflugra sveitarstjórnarstig verður til. Nú þegar þessi ánægjulegu tíðindi liggja fyrir hefst vinna í ráðuneytinu við að útfæra einstakar aðgerðir stefnumótunarinnar, meðal annars varðandi lágmarksíbúafjölda og í þeirri vinnu verður áfram haft náið og gott samráð við sveitarstjórnarstigið.
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 31. janúar 2020.