Categories
Fréttir Uncategorized

Dregið verði úr álagi á fjölskyldumeðlimi – hvort sem á maka eða börn

Deila grein

31/01/2020

Dregið verði úr álagi á fjölskyldumeðlimi – hvort sem á maka eða börn

Ásgerður K. Gylfadóttir, alþingismaður Framsóknar í Suðurkjördæmi, segir að öflug heimahjúkrun, félagsleg heimaþjónusta og dagdvalarrými séu úrræði sem komi til móts við einstaklinga sem vegna langvinnra veikinda eða öldrunar þurfi á stuðningi að halda. Það dragi og úr álagi á fjölskyldumeðlimi, hvort sem á maka eða börn viðkomandi. Þetta kom fram í sérstakri umræðu um örorku kvenna og álag við umönnun á Alþingi í gær.
„Bið eftir dvalarúrræði getur verið mjög erfið og tekið mjög á fjölskyldur og jafnvel fjarskylda ættingja einstaklinga sem eiga ekki neina aðra að,“ sagði Ásgerður.

„Aukið fjármagn þarf til heimahjúkrunar og kom fram í máli ráðherra að unnið væri að því. En mig langar að beina athyglinni að heimahjúkrun í byggðum úti á landi þar sem langt er að fara því að fjármagnið, eins og kerfið er byggt upp í dag, byggir svolítið á fjölda heimsókna frekar en því að langt sé að fara til eins einstaklings.“

„Það er verið að efla heimaþjónustu, dagdvalir, hjúkrunarrými og innleiða velferðartækni í heimaþjónustu. Þetta eru allt aðgerðir sem munu létta álagi af þeim umönnunaraðilum sem í dag eru að vinna þessi störf, en við skulum ekki gleyma forvörnunum.
Líkamleg virkni og styrktarþjálfun, ekki síst á efri árum, er forvörn sem ríkið ætti að koma með afgerandi hætti að með sveitarfélögunum. Það er fjárfesting sem mun draga úr þörf fyrir heilbrigðisþjónustu til langs tíma.
Það er líka forvörn fyrir okkur sem yngri erum að vera dugleg að hreyfa okkur og hugsa vel um okkur þannig að það komi seinna til þess að börnin okkar eða skyldmenni þurfi að fara að hugsa um okkur,“ sagði Ásgerður.