Margt hefur áunnist frá þeim tíma sem Norðurlandaráð var stofnað árið 1952 til að bæta samvinnu og samstarf landanna. Sama ár og Norðurlandaráð var stofnað var tekið upp vegabréfafrelsi á ferðum innan Norðurlandanna og tveimur árum síðar gekk sameiginlegur vinnumarkaður Norðurlanda í gildi með frjálsri för launafólks sem varð undanfari innri markaðar Evrópusambandsins.
Árið 1955 tók Norðurlandasamningurinn um félagslegt öryggi gildi. Þá höfðu farið fram viðræður um tolla- og efnahagsbandalag milli Norðurlandanna og Evrópuríkjanna en í júlí árið 1959 ákváðu stjórnvöld landanna að taka þau áform af norrænni dagskrá. Tíu dögum síðar náðu Danmörk, Noregur og Svíþjóð saman um Fríverslunarsamtök Evrópu (EFTA) en Finnland gerðist aukaaðili árið 1961. Ekki leið á löngu þar til Danir og Norðmenn sóttu um aðild að EBE, Efnahagsbandalagi Evrópu. Staðan innan EFTA breyttist og viðleitni norrænna landa til að gerast aðilar að EBE ýtti undir fastan sáttmála um norrænt samstarf. Úr varð að „Norræna stjórnarskráin“ var samþykkt í Helsinki hinn 23. mars árið 1962, svonefndur Helsingforssamningur. Þar var því slegið föstu að Norðurlandaráð skyldi fá tækifæri til að tjá sig um mikilsverð efni norrænnar samvinnu.
Grænlendingar verða aðilar að ráðinu
Árið 1958 var umfangsmeiru norrænu vegabréfasambandi komið á sem var undanfari Schengen-samstarfsins sem við þekkjum í dag. Þá varð mun auðveldara fyrir Norðurlandabúa að ferðast til nágrannalandanna. Árið 1962 var norræni lýðheilsuháskólinn vígður í Gautaborg og fjórum árum síðar var samningur um norræna menningarsjóðinn undirritaður en sjóðnum var einkum ætlað að styrkja menningarverkefni með þátttöku eigi færri en þriggja norrænna landa. Í ágúst árið 1968 var Norræna húsið í Reykjavík vígt en finnski arkitektinn Alvar Aalto teiknaði það. Tveimur árum síðar samþykkti Norðurlandaráð að fulltrúar Álandseyja og Færeyja gætu tekið þátt í störfum ráðsins í gegnum landsdeildir Danmerkur og Finnlands. Árið 1984 urðu fulltrúar Grænlands einnig aðilar að ráðinu í gegnum landsdeild danska ríkjasambandsins.
Hindranir á landamærum
Það er áhugavert að líta til baka rúm 60 ár aftur í tímann þegar undanfara Schengen-samstarfsins var komið á en Norðurlandaráð hefur einmitt á formennskuárinu nú í ár bent á að margar nýjar hindranir hafa komið upp á landamærum norrænu ríkjanna í tengslum við kórónuveirufaraldurinn. Þetta hefur valdið venjulegu fólki og fyrirtækjum miklum vandræðum. Norðurlandaráð telur betra að komið sé í veg fyrir slíkar hindranir og að erfiðleikar komi upp með sameiginlegum fyrirbyggjandi aðgerðum. Norræna ráðherranefndin og Norðurlandaráð hafa unnið mikið starf á síðustu árum að því að draga úr stjórnsýsluhindrunum á landamærum ríkjanna en sérstakt stjórnsýsluhindranaráð er að störfum fyrir Norrænu ráðherranefndina og stjórnsýsluhindranahópur á vegum Norðurlandaráðs.
Áhersla á umhverfismál
Í lok sjötta áratugar síðustu aldar hófu stjórnvöld ríkjanna skuldbindandi samstarf með stofnun Norrænu ráðherranefndarinnar en á þeim tíma hafði ráðið opnað skrifstofu í Stokkhólmi. Stofnun Norræna fjárfestingabankans gaf tilefni til fyrsta aukaþings Norðurlandaráðs sem haldið var í nóvember árið 1975 en aðalbækistöðvar hans voru staðsettar í Helsinki í Finnlandi. Í kjölfar hins alvarlega kjarnorkuslyss sem varð í Tsjernobyl í Norður-Úkraínu árið 1986 hélt Norðurlandaráð tvær stórar ráðstefnur um umhverfismál þar sem umræðuefnin voru mengun andrúmsloftsins ásamt lífríki sjávar. Allt frá þessum tíma hefur verið lögð mikil áhersla á umhverfismál í norrænu samstarfi.
Múrinn fellur
Árið 1990, áður en Sovétríkin liðu undir lok og Eystrasaltsríkin endurheimtu sjálfstæði sitt, höfðu verið tekin upp samskipti við stjórnmálafólk í baltnesku löndunum. Fulltrúar Eystrasaltsríkjanna sóttu þing Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn í lok febrúar árið 1991 en mánuði áður hafði dregið til tíðinda í Vilníus og Riga. Þegar löndin endurheimtu sjálfstæði sitt hófst náið samstarf Norðurlandaráðs við ný systrasamtök, Eystrasaltsríkjaráðið. Smám saman jókst einnig samstarf við rússneska þingmenn. Árið 1996 flutti skrifstofa Norðurlandaráðs frá Stokkhólmi til Kaupmannahafnar undir sama þak og skrifstofa Norrænu ráðherranefndarinnar. Samstarfið er enn að þróast og Norðurlandaráð hefur myndað tengsl við þingmenn í ýmsum öðrum löndum utan Norðurlandanna. Árið 2007 voru tekin upp samskipti við stjórnarandstöðu og stjórnvöld í Hvíta-Rússlandi. Grunngildi norrænna samfélaga eru mannréttindi, lýðræði og réttarríkið. Það er mikilvægt að Norðurlöndin haldi þessum gildum á lofti, ekki síst nú á tímum þar sem öfgahyggja fer vaxandi og sótt er að réttarríkinu og lýðræðinu. Norðurlöndin eiga að taka sér meira pláss í alþjóðasamfélaginu því þar eigum við erindi.
Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður Framsóknarflokks og forseti Norðurlandsráðs.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 26. nóvember 2020.