Fyrir nokkrum vikum ákvað stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna, í samvinnu við mennta- og menningarmálaráðuneyti, að koma til móts við nemendur með því að taka til greina annars konar staðfestingu skóla á ástundun nemenda en hefðbundnum vottorðum um einingar sem lokið hefur verið við. Jafnframt var ákveðið að námsmenn gætu sótt um aukaferðalán vegna sérstakra aðstæðna sem gætu komið upp vegna faraldursins. Þessi fyrstu skref sýndu mikinn samstarfsvilja hjá LÍN. Um viku síðar varð ljóst að takmörkun á skólastarfi yrði enn meiri en upphaflega var ráðgert og aftur brást LÍN fljótt við, hækkaði tekjuviðmið, seinkaði innheimtuaðgerðum og breytti reglum við mat á undanþágum. Allt miðar þetta að því að sýna sveigjanleika og létta á áhyggjum námsmanna við fordæmalausar aðstæður.
Þessi viðhorf eru mjög í anda frumvarps til nýrra laga um Menntasjóð námsmanna, sem miðar að því að bæta hag námsmanna. Frumvarpið er til meðferðar hjá Alþingi og verður væntanlega að lögum á þessu þingi. Það felur í sér grundvallarbreytingu á stuðningi við námsmenn, mun leiða til betri fjárhagsstöðu námsmanna og lægri skuldastöðu að námi loknu. Til dæmis fá foreldrar í námi fjárstyrk en ekki lán til að framfleyta börnum sínum. Jafnframt er hvati til bættrar námsframvindu, með 30% niðurfærslu á láni ef námi er lokið innan tiltekins tíma. Það stuðlar að betri nýtingu fjármuna, aukinni skilvirkni og þjóðhagslegum ávinningi fyrir samfélagið. Heimilt verður að greiða út námslán mánaðarlega og lánþegar geta valið hvort lánin eru verðtryggð eða óverðtryggð.
Öll þessi atriði vega þungt á vogarskálunum þegar kemur að því að styðja við námsmenn á erfiðum tímum. Nú þurfum við að gera það sem þarf, horfa fram á við og tryggja að námsstuðningur hins opinbera stuðli að jafnrétti til náms.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar.