Categories
Greinar

Mörg þúsund heimili í farvatninu

Deila grein

27/05/2022

Mörg þúsund heimili í farvatninu

Síðustu misseri hefur orðið tíðrætt í samfélaginu um þá grafalvarlegu stöðu sem ríkt hefur á húsnæðismarkaðnum hér á landi og kallað hefur verið eftir tafarlausum aðgerðum. Í febrúar síðastliðinn skipaði Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra starfshóp um aðgerðir og umbætur á húsnæðismarkaði. Í síðustu viku skilað hópurinn af sér 28 tillögum í sjö málaflokkum. Á grundvelli þessara tillagna munu stjórnvöld nú þegar leggja áherslu á aukna uppbyggingu íbúða, endurbættan húsnæðisstuðning og bætta réttarstöðu og húsnæðisöryggi leigjenda.

Langþráð yfirsýn

Með tilkomu skýrslunnar höfum við loks bæði góð og rétt verkfæri í höndunum. Nú í fyrsta sinn er til staðar yfirsýn yfir húsnæðismarkaðinn með betri upplýsingum. Með þeim er hægt að vinna raunhæfa aðgerðaáætlun til fimm ára og húsnæðisstefnu til fimmtán ára. Gerð er tillaga um húsnæðisáætlun um fyrir allt landið og sérstök áhersla lögð á áframhaldandi uppbyggingu almenna íbúðakerfisins og endurskoðun opinbers húsnæðisstuðnings. Húsnæðisöryggi og jafnt aðgengi allra að hagkvæmu húsnæði á viðráðanlegu verði verður sérstakt forgangsmál. Til þess að ná þeim markmiðum á að setja á fót starfshóp ríkis og sveitarfélaga með aðild aðila vinnumarkaðarins um endurskoðun á húsnæðisstuðningskerfum í samræmi við markmið og greiningar í skýrslu starfshópsins en þar kemur meðal annars fram að taka þurfi opinberan húsnæðisstuðning til heildstæðrar endurskoðunar og tryggja að hann nýtist fyrst og fremst þeim sem á þurfa að halda.

Aukin uppbygging íbúða

Niðurstaða þarfagreiningar sveitarfélaga í húsnæðisáætlunum er að byggja þarf um 35.000 íbúðir á næstu tíu árum til að mæta fólksfjölgun en þess ber að geta að í þeirri greiningu er ekki gert ráð fyrir uppbyggingu til að mæta uppsafnaðri þörf sem í maí 2021 var metin um 4.500 íbúðir. Til þess að nálgast stöðugleika á húsnæðismarkaði þarf framboð íbúða og uppbygging að vera í takt við þörf. Til þess að hægt sé að ná þessum markmiðum þarf húsnæðisáætlun fyrir landið allt. En ein meginforsenda þess að stuðla að stöðugleika í húsnæðismálum og tryggja nauðsynlega uppbyggingu er að ríki og sveitarfélög sameinist um sýn og stefnu í húsnæðismálum til lengri tíma.

Því er ánægjulegt að segja frá því að ríkið og Samband íslenskra sveitarfélaga munu nú þegar hefja viðræður um rammasamning um byggingu 4.000 íbúða árlega á landsvísu næstu fimm árin og 3.500 íbúða árlega næstu fimm ár þar á eftir. Í þeirri vinnu verður sértaklega horft til þeirra markmiða sem sett eru fram í tillögum starfshópsins en þær er meðal annars að félagslegt húsnæði nemi að jafnaði 5% nýrra íbúða og hagkvæmt húsnæði sé sem næst 30% með sérstakri áherslu á almenna íbúðarkerfið. Sé horft til höfuðborgarsvæðisins er nauðsynlegt að taka upp svæðisskipulagið sem gildir til ársins 2040 svo gera megi öllum sveitarfélögum á svæðinu kleift að taka þátt í því mikla verkefni sem fram undan er í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis á landinu öllu. Samhliða þéttingu byggðar þarf að vera svigrúm til að brjóta nýtt land svo byggja megi hratt og vel fyrir alla hópa samfélagsins.

Virkur og heilbrigður leigumarkaður

Þá er mikilvægt að tryggja réttindi og húsnæðisöryggi leigjenda. Opinber gögn sýna að staða leigjenda er lakari en staða þeirra sem búa í eigin húsnæði og almennt telja leigjendur sig búa við minna húsnæðisöryggi en fólk í eigið húsnæði. Leigjendur búa við þyngri fjárhagslegri byrði húsnæðiskostnaðar og töluvert hærra hlutfall leigjenda en eigenda býr við íþyngjandi húsnæðiskostnað. Inn á þessi atriði er komið í skýrslu starfshópsins og lagðar fram tillögur um virkan og heilbrigðan leigumarkað sem raunverulegan valkost. Meðal annars með því að endurskoða ákvæði húsaleigulaga með það að markmiði að bæta réttarstöðu og húsnæðisöryggi leigjenda.

Jafnvægi er lykillinn

Á sama tíma og ég fagna vinnu starfshópsins og þeirri mikilvægu greiningarvinnu sem þar er hvet ég innviðaráðherra áfram til góðra verka, en mörg þau verkefni sem nú liggja fyrir eru á verksviði hans. Þetta er gott skref þar sem við erum nú í fyrsta sinn er verið að horfa til framtíðar í húsnæðismálum. Í fyrsta sinn er verið að styðjast við mannfjöldaspár og bera saman við húsnæðisáætlanir sveitarfélaga. Í fyrsta sinn er verið að setja fram aðgerðaáætlun líkt og í samgönguáætlun og stefnu til 15 ára. Allt undir forystu Framsóknar og í ráðuneyti Sigurðar Inga Jóhannssonar innviðaráðherra. Það er mín einlæga von að við förum að sjá til lands í húsnæðismálum hér á landi, því jafnvægi á húsnæðismarkaði er samfélaginu öllu mikilvægt.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður

Greinin birtist fyrst á mbl.is 26. maí 2022