Undanfarna mánuði hefur sýningin MUGGUR – Guðmundur Thorsteinsson staðið yfir í Listasafni Íslands. Guðmundur (1891-1924), eða Muggur, er einn merkasti og afkastamesti myndlistamaður þjóðarinnar – og í raun okkar fyrsti fjöllistamaður. Ungur að árum fluttist hann til Kaupmannahafnar árið 1903 ásamt fjölskyldu sinni þar sem hann nam myndlist við Konunglega listaháskólann á árunum 1911-1915. Þrátt fyrir stutta ævi skildi Muggur eftir sig nokkuð fjölbreytt safn verka sem bera þess glöggt merki að hæfileikum hans voru fá takmörk sett eins og rakið er í veglegri bók sem Listasafn Íslands gaf út honum til heiðurs árið 2021.
Muggur, ásamt fleiri merkum myndlistarmönnum þjóðarinnar, hefur undirbyggt sterkan grunn fyrir menningarlíf samtímans. Á Íslandi ríkir kraftmikil og lifandi myndlistarmenning og myndlistarstarfsemi. Myndlist leikur stórt hlutverk í samfélaginu. Hún er órjúfanlegur hluti af menntun, þroska og daglegu lífi fólks um allt land. Myndlistarfólk er metið að verðleikum og áhersla er á kennslu og nám í myndlist og listasögu á öllum skólastigum. Myndlist á vaxandi samfélagslegu hlutverki að gegna og stuðlar að gagnrýnni og skapandi hugsun og umræðu.
Fram undan er tilefni til að beina sjónum að frekari tækifærum til vaxtar. Sköpun íslenska listamanna fangar athygli fólks hér á landi sem og erlendis. Árangurinn birtist í fleiri tækifærum íslenskra listamanna til þátttöku í kraftmikilli safnastarfsemi og vönduðum sýningum um allt land. Einnig endurspeglast árangurinn í þátttöku á virtum alþjóðlegum viðburðum og sýningum. Eftirspurn eftir kaupum á íslenskum listaverkum er umtalsverð.
Myndlist verður eitt af áherslumálum mínum í nýstofnuðu menningar- og viðskiptaráðuneyti og hef ég boðað að ný myndlistarstefna verði kynnt á fyrstu 100 starfsdögum ráðuneytisins og að innleiðing hennar verði í forgrunni á næstu árum.
Stefnan mun kalla á fjölbreyttan stuðning við listsköpun, menntun, mynd- og miðlalæsi sem styðji við kraftmikla myndlistarmenningu og vitundarvakningu á meðal almennings. Allar forsendur eru til þess að efla myndlist sem enn sýnilegri og öflugri atvinnugrein sem að varpar jákvæðu ljósi á landið okkar.
Ég hvet alla áhugasama til að heimsækja Listasafn Íslands um helgina, sem verður síðasta sýningahelgi „MUGGUR – Guðmundur Thorsteinsson“, og virða fyrir sér fjölbreytt framlag hans til íslensks menningararfs.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst á mbl.is 11. febrúar 2022