Categories
Greinar

Múlaþing – gæfuspor

Deila grein

05/05/2022

Múlaþing – gæfuspor

Eins og flest­ar sam­ein­ing­ar sveit­ar­fé­laga átti sam­ein­ing­in í Múlaþing árið 2020 sér tölu­verðan aðdrag­anda. Grein­ar­höf­und­ur var bæj­ar­stjóri á Seyðis­firði árin 2011-2018 og á þeim árum var málið nokkuð til umræðu eins og sjá má í tíma­rit­inu Sveit­ar­stjórn­ar­mál­um frá í maí 2014. Þar var fjallað um umræðu sem varð um mögu­lega sam­ein­ingu Fljóts­dals­héraðs og Seyðis­fjarðar­kaupstaðar í aðdrag­anda sveit­ar­stjórn­ar­kosn­inga það ár.

Í grein­inni kem­ur fram að bæj­ar­ráð Seyðis­fjarðar­kaupstaðar og bæj­ar­stjórn Fljóts­dals­héraðs samþykktu bæði bók­un um kosti þess að sam­eina sveit­ar­fé­lög­in. Í bók­un bæj­ar­stjórn­ar Fljóts­dals­héraðs kom m.a. fram að mikl­ir mögu­leik­ar gætu fal­ist í frek­ari sam­ein­ingu sveit­ar­fé­laga á Aust­ur­landi og að með trygg­um vetr­ar­sam­göng­um milli sveit­ar­fé­lag­anna mætti telja lík­legt að all­ar for­send­ur væru til slíkr­ar sam­ein­ing­ar. Í bók­un bæj­ar­ráðs Seyðis­fjarðar­kaupstaðar kom m.a. fram að með tryggðum vetr­ar­sam­göng­um milli Seyðis­fjarðar og Fljóts­dals­héraðs yrðu til mik­il tæki­færi á Aust­ur­landi til enn frek­ari sam­vinnu og mögu­legr­ar sam­ein­ing­ar, stæði hug­ur íbúa á Aust­ur­landi til þess.

Seyðfirðing­ar hafa, ásamt fleir­um, lengi bar­ist fyr­ir jarðgöng­um und­ir Fjarðar­heiði til Héraðs. Í fyrr­nefndri grein er haft eft­ir þáver­andi bæj­ar­stjóra á Seyðis­firði að ef stytt­ist í göng­in verði for­send­ur fyr­ir því að kanna viðhorf íbú­anna. Þá gætu sveit­ar­fé­lög­in aukið sam­starf sín á milli og þá yrði sam­ein­ing greiðari síðar ef menn kysu hana.

Síðla árs 2017 þróuðust mál á þann veg að í sveit­ar­fé­lög­un­um sem sam­einuðust í Múlaþing, auk Vopna­fjarðar­hrepps og Fljóts­dals­hrepps, var ákveðið að láta fara fram könn­un um hug íbúa til sam­ein­ing­ar, en þessi sveit­ar­fé­lög höfðu lengi haft með sér sam­starf, m.a. um fé­lagsþjón­ustu og bruna­varn­ir. Niðurstaða þess­ar­ar könn­un­ar var nokkuð af­ger­andi já­kvæð hjá þeim sveit­ar­fé­lög­um sem síðan sam­einuðust en einnig skýr afstaða á ann­an veg í hinum.

Haustið efir sveit­ar­stjórn­ar­kosn­ing­ar 2018 hófst síðan sú veg­ferð sem leiddi á end­an­um til sam­ein­ing­ar í Múlaþing. Þeirri vinnu verða ekki gerð sér­stak­lega skil hér enda er það efni í aðra grein. Óhætt er þó að segja að vandað var til verka, sem full­yrða má að létti mjög sam­ein­ing­una og starfið við stofn­un hins nýja sveit­ar­fé­lags. Mark­miðið með sam­ein­ing­unni var skýrt: að bæta þjón­ustu, efla stjórn­sýslu og styrkja innviði. Sér­stök áhersla var lögð á sam­göng­ur milli byggðarlag­anna og að varðveita sér­stöðu byggðakjarn­anna og tryggja áhrif íbúa nærsam­fé­lags­ins inn­an þeirra.

Við upp­haf Múlaþings voru inn­leidd­ar nýj­ung­ar hvað varðar stjórn­sýslu sveit­ar­fé­laga, s.s. með til­komu heima­stjórna sem er mál manna að hafi gef­ist vel og haft já­kvæð áhrif á virkni íbúa og áhuga á mál­efn­um nærsam­fé­lags­ins. Einnig hef­ur vel tek­ist til með ra­f­ræn­ar lausn­ir, s.s. hvað fjar­fundi varðar, sem jafn­ar aðstöðu íbúa í afar víðfeðmu sveit­ar­fé­lagi til að taka þátt í störf­um á vett­vangi þess. Áhersla var lögð á að áfram yrðu skrif­stof­ur í hverju byggðarlagi eins og verið hafði. Þannig verða störf í stjórn­sýslu sveit­ar­fé­lags­ins a.m.k. að hluta ekki háð staðsetn­ingu og íbú­ar hafa aðgang að stjórn­sýslu sveit­ar­fé­lags­ins í sín­um byggðakjörn­um.

Það hef­ur verið góð sam­vinna og sam­starf í sveit­ar­stjórn, ráðum og heima­stjórn­um sem hef­ur gert starfið ár­ang­urs­rík­ara, sem ætíð skipt­ir miklu máli, en sér­stak­lega á tím­um um­fangs­mik­illa breyt­inga. Þannig vilj­um við Fram­sókn­ar­fólk í Múlaþingi starfa áfram í þágu íbúa sveit­ar­fé­lags­ins og ósk­um eft­ir stuðningi kjós­enda hinn 14. maí nk. til þess.

Vilhjálmur Jónsson

Höf­und­ur er sveit­ar­stjórn­ar­full­trúi og skip­ar 2. sæti á lista Fram­sókn­ar­fé­lags Múlaþings fyr­ir kom­andi sveit­ar­stjórn­ar­kosn­ing­ar. jons­son.vil­hjalm­ur@gmail.com

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 5. maí 2022