Eins og flestar sameiningar sveitarfélaga átti sameiningin í Múlaþing árið 2020 sér töluverðan aðdraganda. Greinarhöfundur var bæjarstjóri á Seyðisfirði árin 2011-2018 og á þeim árum var málið nokkuð til umræðu eins og sjá má í tímaritinu Sveitarstjórnarmálum frá í maí 2014. Þar var fjallað um umræðu sem varð um mögulega sameiningu Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga það ár.
Í greininni kemur fram að bæjarráð Seyðisfjarðarkaupstaðar og bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs samþykktu bæði bókun um kosti þess að sameina sveitarfélögin. Í bókun bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs kom m.a. fram að miklir möguleikar gætu falist í frekari sameiningu sveitarfélaga á Austurlandi og að með tryggum vetrarsamgöngum milli sveitarfélaganna mætti telja líklegt að allar forsendur væru til slíkrar sameiningar. Í bókun bæjarráðs Seyðisfjarðarkaupstaðar kom m.a. fram að með tryggðum vetrarsamgöngum milli Seyðisfjarðar og Fljótsdalshéraðs yrðu til mikil tækifæri á Austurlandi til enn frekari samvinnu og mögulegrar sameiningar, stæði hugur íbúa á Austurlandi til þess.
Seyðfirðingar hafa, ásamt fleirum, lengi barist fyrir jarðgöngum undir Fjarðarheiði til Héraðs. Í fyrrnefndri grein er haft eftir þáverandi bæjarstjóra á Seyðisfirði að ef styttist í göngin verði forsendur fyrir því að kanna viðhorf íbúanna. Þá gætu sveitarfélögin aukið samstarf sín á milli og þá yrði sameining greiðari síðar ef menn kysu hana.
Síðla árs 2017 þróuðust mál á þann veg að í sveitarfélögunum sem sameinuðust í Múlaþing, auk Vopnafjarðarhrepps og Fljótsdalshrepps, var ákveðið að láta fara fram könnun um hug íbúa til sameiningar, en þessi sveitarfélög höfðu lengi haft með sér samstarf, m.a. um félagsþjónustu og brunavarnir. Niðurstaða þessarar könnunar var nokkuð afgerandi jákvæð hjá þeim sveitarfélögum sem síðan sameinuðust en einnig skýr afstaða á annan veg í hinum.
Haustið efir sveitarstjórnarkosningar 2018 hófst síðan sú vegferð sem leiddi á endanum til sameiningar í Múlaþing. Þeirri vinnu verða ekki gerð sérstaklega skil hér enda er það efni í aðra grein. Óhætt er þó að segja að vandað var til verka, sem fullyrða má að létti mjög sameininguna og starfið við stofnun hins nýja sveitarfélags. Markmiðið með sameiningunni var skýrt: að bæta þjónustu, efla stjórnsýslu og styrkja innviði. Sérstök áhersla var lögð á samgöngur milli byggðarlaganna og að varðveita sérstöðu byggðakjarnanna og tryggja áhrif íbúa nærsamfélagsins innan þeirra.
Við upphaf Múlaþings voru innleiddar nýjungar hvað varðar stjórnsýslu sveitarfélaga, s.s. með tilkomu heimastjórna sem er mál manna að hafi gefist vel og haft jákvæð áhrif á virkni íbúa og áhuga á málefnum nærsamfélagsins. Einnig hefur vel tekist til með rafrænar lausnir, s.s. hvað fjarfundi varðar, sem jafnar aðstöðu íbúa í afar víðfeðmu sveitarfélagi til að taka þátt í störfum á vettvangi þess. Áhersla var lögð á að áfram yrðu skrifstofur í hverju byggðarlagi eins og verið hafði. Þannig verða störf í stjórnsýslu sveitarfélagsins a.m.k. að hluta ekki háð staðsetningu og íbúar hafa aðgang að stjórnsýslu sveitarfélagsins í sínum byggðakjörnum.
Það hefur verið góð samvinna og samstarf í sveitarstjórn, ráðum og heimastjórnum sem hefur gert starfið árangursríkara, sem ætíð skiptir miklu máli, en sérstaklega á tímum umfangsmikilla breytinga. Þannig viljum við Framsóknarfólk í Múlaþingi starfa áfram í þágu íbúa sveitarfélagsins og óskum eftir stuðningi kjósenda hinn 14. maí nk. til þess.
Vilhjálmur Jónsson
Höfundur er sveitarstjórnarfulltrúi og skipar 2. sæti á lista Framsóknarfélags Múlaþings fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar. jonsson.vilhjalmur@gmail.com
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 5. maí 2022