Þau ríki sem ætla sér stóra sigra í samkeppni þjóðanna á komandi árum þurfa að tryggja góða menntun. Menntun leggur grunn að hagsæld og velferð einstaklinga og jafnt aðgengi að námi er ein af stoðum velferðarsamfélagsins. Þess vegna er stjórnvöldum skylt að skapa stuðningskerfi sem hjálpar fólki að sækja sér menntun – kerfi sem er gagnsætt, hvetjandi og sanngjarnt. Kerfi sem tryggir að námsmenn geti framfleytt sér og sínum á námstímanum, án þess að stefna fjölskyldu-, félagslífi, heilsunni eða námsárangrinum í hættu!
Á síðasta ári vannst mikill áfangasigur, þegar ný lög um menntasjóð námsmanna voru samþykkt. Menntasjóður gjörbreytir stöðu námsmanna, betri fjárhagsstöðu við námslok og lægri endurgreiðslur lána. Höfuðstóll námslána lækkar nú um 30% við námslok á réttum tíma og beinn stuðningur er nú veittur til framfærslu barna, en ekki lán eins og áður.
Baráttunni fyrir námsmenn er þó ekki lokið, því enn á eftir að breyta framfærsluviðmiðum fyrir námsmenn. Þau viðmið liggja til grundvallar lánveitingum og eiga að duga námsmönnum til að framfleyta sér; kaupa klæði og mat, greiða fyrir húsnæði og aðrar grunnþarfir. Framfærsluviðmið námsmanna eru hins vegar lægri en önnur neysluviðmið, hvort sem horft er til atvinnuleysisbóta, neysluviðmiða félagsmálaráðuneytisins eða þeirra sem umboðsmaður skuldara miðar við. Samkvæmt sameiginlegri könnun Maskínu, ráðuneytisins og LÍS vinna um 64% námsmanna með námi. Fyrir marga námsmenn dugar því grunnframfærsla ekki til að ná endum saman og einhverjir þurfa einfaldlega að loka skólatöskunni í eitt skipti fyrir öll.
Ríkisstjórnin er meðvituð um þessa mikilvægu áskorun og nýverið lagði ég til að grunnframfærsla menntasjóðs yrði hækkuð. Tillögunni var vel tekið og var hópi ráðuneytisstjóra falið að útfæra tillöguna nánar.
Sumarið fram undan mun litast af heimsfaraldrinum, þar sem atvinnutækifæri verða færri en í venjulegu árferði. Stjórnvöld hafa útfært ýmsar sumaraðgerðir fyrir námsmenn, sem miða að því að skapa sumarstörf eða námstækifæri fyrir framhaldsskóla- og háskólanema. Við byggjum m.a. á reynslunni frá síðasta sumri þegar 5.600 manns stunduðu sumarnám í framhalds- og háskólum og nú verður 650 milljónum varið til að tryggja fjölbreytt námsframboð; stuttar og hagnýtar námsleiðir, sérsniðna verklega kynningaráfanga og íslenskuáfanga fyrir nemendur með annað móðurmál en íslensku. Nýsköpunarsjóður námsmanna mun styrkja 351 nemanda til sumarvinnu við rannsóknar- og þróunarverkefni. Þá er ótalin 2,4 milljarða fjárveiting til að skapa 2.500 sumarstörf fyrir námsmenn 18 ára og eldri.
Stjórnvöld vilja virkja krafta námsmanna, skapa tækifæri til náms og virðisaukandi atvinnu fyrir ungt fólk. Það er hagur okkar allra.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og mennta- og menningarmálaráðherra.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 13. apríl 2021.