Categories
Greinar

Nám verður raunhæfur kostur fyrir alla

Deila grein

15/04/2021

Nám verður raunhæfur kostur fyrir alla

Þau ríki sem ætla sér stóra sigra í sam­keppni þjóðanna á kom­andi árum þurfa að tryggja góða mennt­un. Mennt­un legg­ur grunn að hag­sæld og vel­ferð ein­stak­linga og jafnt aðgengi að námi er ein af stoðum vel­ferðarsam­fé­lags­ins. Þess vegna er stjórn­völd­um skylt að skapa stuðnings­kerfi sem hjálp­ar fólki að sækja sér mennt­un – kerfi sem er gagn­sætt, hvetj­andi og sann­gjarnt. Kerfi sem trygg­ir að náms­menn geti fram­fleytt sér og sín­um á náms­tím­an­um, án þess að stefna fjöl­skyldu-, fé­lags­lífi, heils­unni eða náms­ár­angr­in­um í hættu!

Á síðasta ári vannst mik­ill áfanga­sig­ur, þegar ný lög um mennta­sjóð náms­manna voru samþykkt. Mennta­sjóður gjör­breyt­ir stöðu náms­manna, betri fjár­hags­stöðu við náms­lok og lægri end­ur­greiðslur lána. Höfuðstóll náms­lána lækk­ar nú um 30% við náms­lok á rétt­um tíma og beinn stuðning­ur er nú veitt­ur til fram­færslu barna, en ekki lán eins og áður.

Bar­átt­unni fyr­ir náms­menn er þó ekki lokið, því enn á eft­ir að breyta fram­færslu­viðmiðum fyr­ir náms­menn. Þau viðmið liggja til grund­vall­ar lán­veit­ing­um og eiga að duga náms­mönn­um til að fram­fleyta sér; kaupa klæði og mat, greiða fyr­ir hús­næði og aðrar grunnþarf­ir. Fram­færslu­viðmið náms­manna eru hins veg­ar lægri en önn­ur neyslu­viðmið, hvort sem horft er til at­vinnu­leys­is­bóta, neyslu­viðmiða fé­lags­málaráðuneyt­is­ins eða þeirra sem umboðsmaður skuld­ara miðar við. Sam­kvæmt sam­eig­in­legri könn­un Maskínu, ráðuneyt­is­ins og LÍS vinna um 64% náms­manna með námi. Fyr­ir marga náms­menn dug­ar því grunn­fram­færsla ekki til að ná end­um sam­an og ein­hverj­ir þurfa ein­fald­lega að loka skóla­tösk­unni í eitt skipti fyr­ir öll.

Rík­is­stjórn­in er meðvituð um þessa mik­il­vægu áskor­un og ný­verið lagði ég til að grunn­fram­færsla mennta­sjóðs yrði hækkuð. Til­lög­unni var vel tekið og var hópi ráðuneyt­is­stjóra falið að út­færa til­lög­una nán­ar.

Sum­arið fram und­an mun lit­ast af heims­far­aldr­in­um, þar sem at­vinnu­tæki­færi verða færri en í venju­legu ár­ferði. Stjórn­völd hafa út­fært ýms­ar sum­araðgerðir fyr­ir náms­menn, sem miða að því að skapa sum­arstörf eða náms­tæki­færi fyr­ir fram­halds­skóla- og há­skóla­nema. Við byggj­um m.a. á reynsl­unni frá síðasta sumri þegar 5.600 manns stunduðu sum­ar­nám í fram­halds- og há­skól­um og nú verður 650 millj­ón­um varið til að tryggja fjöl­breytt náms­fram­boð; stutt­ar og hag­nýt­ar náms­leiðir, sér­sniðna verk­lega kynn­ingaráfanga og ís­lensku­áfanga fyr­ir nem­end­ur með annað móður­mál en ís­lensku. Ný­sköp­un­ar­sjóður náms­manna mun styrkja 351 nem­anda til sum­ar­vinnu við rann­sókn­ar- og þró­un­ar­verk­efni. Þá er ótal­in 2,4 millj­arða fjár­veit­ing til að skapa 2.500 sum­arstörf fyr­ir náms­menn 18 ára og eldri.

Stjórn­völd vilja virkja krafta náms­manna, skapa tæki­færi til náms og virðis­auk­andi at­vinnu fyr­ir ungt fólk. Það er hag­ur okk­ar allra.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 13. apríl 2021.