Categories
Greinar

Norðurlönd og alþjóðamálin

Deila grein

28/10/2015

Norðurlönd og alþjóðamálin

HÞÞ1Í dag fer fram utanríkismálaumræða á þingi Norðurlandaráðs í Reykjavík. Málaflokkurinn er forgangsmál í formennskutíð Íslands og hefur fengið aukið vægi á vettvangi Norðurlandaráðs á undanförnum árum.

Það var ekki alltaf svo. Í kalda stríðinu voru utanríkismál lengst af ekki rædd á vettvangi norrænnar samvinnu en eftir lok þess komust þau á dagskrá. Ísland átti sinn hlut í því. Undir lok níunda áratugarins komu þingmenn Norðurlandaráðs á tengslum við starfssystkin sín í Eystrasaltsríkjunum. Þetta var á þeim dramatísku dögum sem liðu frá falli Berlínarmúrsins til endaloka Sovétríkjanna og þegar sjálfstæðisbarátta Eystrasaltsríkjanna var í algleymingi. Páll Pétursson, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra, leiddi sendinefnd sex þingmanna úr forystu Norðurlandaráðs til Ríga, Vilníus og Tallinn í nóvember 1990 og fleiri sendinefndir áttu eftir að fylgja. Norðurlandaráð bauð fulltrúum sjálfstæðishreyfinganna í Eystrasaltslöndunum á þing Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn í febrúar 1991 á meðan þau lutu enn sovéskri stjórn og var það mikilvægur stuðningur við málstað Eystrasaltsþjóðanna. Æ síðan hefur Norðurlandaráð átt náið samstarf við Eistland, Lettland og Litháen og einbeitt sér að nærsvæðasamvinnu í austri með það að leiðarljósi að styðja við stöðugleika og lýðræðisþróun til framtíðar.

Ástandið í Austur-Evrópu hefur verið ofarlega á baugi frá því hernaðarátökin í Úkraínu hófust fyrir 20 mánuðum. Norðurlöndin hafa verið einhuga um að fordæma yfirgang Rússa gagnvart Úkraínu og hina ólöglegu innlimun Krímskaga. Við í Norðurlandaráði höfum ásamt systursamtökum okkar Eystrasaltsráðinu heimsótt Kiev og finnum mikinn áhuga þingmanna í Úkraínu á nánara samstarfi við Norðurlönd og Eystrasaltslöndin um að þróa lýðræði og góða stjórnarhætti. Hvað Hvíta-Rússland varðar hafa samskipti við þingið í Minsk legið niðri frá kosningunum 2011 en á móti eigum við samstarf við stjórnarandstöðu og frjáls félagasamtök. Auðvitað hefur þróun síðustu missera haft neikvæð áhrif á samstarf okkar við Rússland og lokun skrifstofa norrænu ráðherranefndarinnar í Rússlandi eftir breytta afstöðu rússneskra stjórnvalda til þeirra eftir 20 ára rekstur var skref í ranga átt.

Nærsvæði Norðurlanda eru ekki bara í austri heldur líka í norðri og vestri. Norðurslóðir skipa æ stærri sess í starfi Norðurlandaráðs. Á níunda áratug síðustu aldar beindist athyglin að siglingum og mengun sjávar, á tíunda áratugnum að umhverfis- og öryggismálum. Norðurlandaráð átti stóran þátt í að koma á fót Þingmannaráðstefnunni um norðurskautsmál sem síðan leiddi af sér stofnun norðurskautsráðsins. Markmið íslensku formennskunnar í Norðurlandaráði hefur verið að halda áfram því starfi sem unnið hefur verið varðandi umhverfismál, loftslagsbreytingar, efnahagsmál, samfélagsmál og öryggismál á nærsvæði okkar í norðri. Markmið okkar er einnig að stuðla að umfjöllun um málefni Vestur-Norðurlanda, Færeyja og Grænlands, í Norðurlandaráði og kanna samstarfsmöguleika við grannríki í vestri, Kanada og Bandaríkin, m.a. vegna þeirra ríku norrænu hagsmuna sem felast í öryggis- og umhverfismálum þess svæðis.

Flóttamannastraumurinn til Evrópu og viðbrögð við honum verða sérstakt umfjöllunarefni á þinginu. Hundruð þúsunda manna hafa flúið hrylling og eyðileggingu stríðsátaka í heimalöndum sínum og komið til Evrópu á síðustu vikum í mestu fólksflutningum frá lokum síðari heimsstyrjaldar. Norðurlöndin hafa á margan hátt ólíka stefnu gagnvart móttöku flóttafólks en löndin standa frammi fyrir sömu áskorunum og þau ræða sín á milli og finna sameiginlegar lausnir þar sem við á. Einn varaframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, Christian Friis Bach, mun sérstaklega ræða flóttamannamálin í framsögu sinni í dag.

Við fjöllum ekki einungis um nærsvæðin á sviði utanríkismála í Norðurlandaráði. Fyrir þinginu liggur tillaga um að beina tilmælum til ríkisstjórna og þjóðþinga Norðurlandanna um að viðurkenna Palestínu sem fullvalda og sjálfstætt ríki. Ísland viðurkenndi Palestínu þegar í desember 2011 eftir samþykkt Alþingis þar um og Svíþjóð fylgdi í kjölfarið í október 2014. Ljóst er að skiptar skoðanir eru um tillöguna en Norðurlöndin deila öll sama markmiði um tveggja ríkja lausn og varanlegan frið fyrir botni Miðjarðarhafs. Því má búast við líflegum umræðum um Palestínutillöguna og utanríkismál almennt og jafnvel að menn takist á. Það er einungis eðlilegt í samstarfi lýðræðisríkja og sýnir styrk norrænnar samvinnu. Skýrsla Torvalds Stoltenbergs, fyrrverandi utanríkisráðherra Noregs, um norræna samvinnu á sviði utanríkis- og öryggismála frá 2009 kallaði eftir auknu samstarfi á þessu sviði. Við höfum svo sannarlega hlýtt því kalli og lagt áherslu á alþjóðamál á formennskuári Íslands í Norðurlandaráði.

Höskuldur Þórhallsson

Greinin birtist í Morgunblaðinu 28. október 2015.