Categories
Greinar

Not­enda­gjöld í um­ferðinni

Deila grein

24/08/2022

Not­enda­gjöld í um­ferðinni

Sem hluti af loftlagsstefnu hafa stjórnvöld nú lagt aukna áherslu á orkuskipti í samgöngum. Samliða orkuskiptunum verður þó ekki litið fram hjá að huga þarf að breyttri gjaldtöku í umferðinni, en núverandi gjaldtaka hér á landi er mest í formi eldsneytisgjalds. Gert er ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs af eldsneytisgjöldum og vörugjöldum ökutækja muni líklega lækka um milljarða króna bara á þessu ári vegna fjölgunar rafbíla.

Í samgönguáætlun sem samþykkt var í fyrra var ákveðið að taka umferðargjald til endurskoðunar samhliða orkuskiptum í samgöngum. Lagt er til að hætt verði með bensín- og dísilgjöld og þess í stað komi einhverskonar notkunargjöld eða veggjöld líkt og tíðkast víða í nágrannalöndum okkar. Með fyrirliggjandi orkuskiptum komumst við ekki hjá því að taka upp þá umræðu hvernig við sjáum fyrir okkur framtíðar gjaldtöku af umferðinni.

Rangfærslur á samfélagsmiðlum

Í umfjöllun á samfélagsmiðlum undanfarnar vikur hefur komið fram að innheimta gjaldtöku í jarðgöngum sé til þess að fjármagna fyrirhuguð jarðgöng á landinu og hefur verið nefnt að upphæð fyrir hverja ferð verði 300 krónur. Þessi upphæð er algjörlega úr lausu lofti gripin enda hefur ekki verið tekin nein ákvörðun um fjárhæðir í þessum efnum. Útfærsla á notkunargjaldi í jarðgöngum hefur ekki verið ákveðin, áður en það er gert þarf fyrst að fara fram greiningarvinna. Niðurstöður greiningarvinnu gætu falið í sér mismunandi gjöld eftir staðsetningu, gerð og samfélagsaðstæðum eða afslátt til þeirra sem búa við viðkomandi jarðgöng. Við ákvörðunartöku sem þessa þarf að sjálfsögðu að horfa til sjónarmiða sem eðlilegt og réttmætt þykir að taka tillit til, m.a. jafnræðissjónarmiða.

Færeyska leiðin í gjaldtöku í jarðgöngum.

Í greinargerð með samgönguáætlun 2020 til 2034 segir að stefnt sé að gjaldtöku af umferð í jarðgöngum á Íslandi sem fjármagna eigi rekstur og viðhald ganganna sem og hluta framkvæmdakostnaðar nýrra jarðganga. Þessi leið við framkvæmd jarðganga felur einnig í sér stofnun félags um jarðgangagerð með framlagi frá ríkinu í upphafi en síðan taki notendur þátt í hluta af kostnaði við framkvæmd. En í stefnumótun með endurskoðaðri samgönguáætlun til komandi framtíðar og fjármögnun samgangna var m.a. talað um notendagjöld í jarðgöngum.

Við undirbúningsvinnuna hefur verið horf til hvernig frændur okkar í Færeyjum hafa farið að við uppbyggingu á jarðgöngum. Í Færeyjum er gjaldtaka í neðansjávargöngum og hafa þar verið stofnuð félög til þess að standa straum af gerð þeirra en vegagerð Færeyja hefur síðan eftirlit með þeim. Veggjald í jarðgöng í Færeyjum eru mishá eftir staðsetningu jarðganga en þau eru allt að 100 DKK en veittir eru afslættir fyrir þá sem nýta þau sér mikið líkt og til íbúa nærliggjandi svæða.

Gjaldtaka af umferð í Noregi frá 1960

Norðmenn hafa innheimt veggjöld til að kosta gerð mannvirkjanna í fjölda ára eða allt frá árinu 1960. Um 1200 jarðgöng af ýmsum stærðum og gerðum eru víðs vegar í Noregi og eru veggjöld sérstaklega innheimt af nokkrum þeirra. Um þriðjungur allra veggjalda í Noregi er innheimtur af umferð á Oslóarsvæðinu, gjaldstöðvar þar eru 83 talsins. Í kringum Osló búa 1,2 milljónir manna eða um fjórðungur íbúa landsins. Upphæðir veggjalda eru misháar eftir umferðarmannvirkjum. Skuldastaða vegna stofnkostnaðar við mannvirkin hefur þar áhrif en dýrara er að fara um ný mannvirki en þau eldri. Gjaldflokkar fara einnig eftir stærð, þunga og eldsneytistegund bíla. Lægri veggjöld eru innheimt af bílum sem hvorki gefa frá sér koldíoxíð né nítrógenoxíð. Þá er líka rukkað mismunandi eftir annatíma umferðar.

Við viljum öll gott samgöngukerfi

Það hefur verið stefna núverandi stjórnvalda að hraða framkvæmdum í samgöngum og byggja upp gott og skilvirkt samgöngukerfi um allt land. Til þess að fjármagna allar þessar framkvæmdir er óhjákvæmilegt að taka upp einhverskonar gjald og hefur verið talað um þrjár leiðir við innheimtu notendagjalda: gjaldtöku á þremur meginstofnæðum til og frá höfuðborginni, samvinnuleið (PPP-verkefni) og gjaldtöku í jarðgöngum.

Útfærsla á gjaldtöku af umferð hér á landi, hvort sem það er um jarðgöng, brýr eða önnur umferðarmannvirki hefur ekki verið ákveðin. Áður en það er gert er eðlilegt að það fari fram gagnrýnin og uppbyggilega umræða um allt land. En niðurstaðan verður að vera sú að þegar umferðagjöld verða tekin til endurskoðunar og tekin upp notkunargjöld, eins og samgönguáætlun sem samþykkt var árið 2019 gerir ráð fyrir, verð horft til jafnræðissjónarmiða íbúa landsins. Þannig höldum við áfram veginn.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar

Greinin birtist fyrst á visir.is 24. ágúst 2022.