Markmið ríkisstjórnarinnar er að styðja við nýsköpun og hugvitsdrifið hagkerfi til framtíðar. Við ætlum að efla íslenskt menntakerfi með markvissum aðgerðum í samstarfi við skóla og atvinnulíf, þannig að færniþörf samfélagsins verði mætt á hverjum tíma. Hraðar tæknibreytingar auka þörfina á skilvirkari menntun.
Eitt af því sem hefur verið einkennandi fyrir menntakerfið okkar er að mun færri sækja starfs- og tækninám á Íslandi en í samanburðarlöndum. Á Íslandi útskrifast um 30% úr starfs- og tækninámi en það hlutfall er 50% í Noregi. Afleiðingin er sú að efla þarf færnina á íslenskum vinnumarkaði í þágu samfélagsins. Samkvæmt Efnahags- og framfarastofnuninni (e. OECD) er framleiðni á Íslandi undir meðaltali Norðurlandaríkjanna, sem skýrist af færnimisræmi á vinnumarkaði. Fram kemur í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá árinu 2017 að yfirvöld menntamála hafi í gegnum tíðina eytt miklum tíma og fjármunum í greiningar en illa hafi gengið að koma aðgerðum til framkvæmda. Ríkisendurskoðun segir jafnframt að brýnt sé að stjórnvöld grípi til markvissra aðgerða sé raunverulegur vilji til þess að efla starfsnám eins og ítrekað hafi verið lýst yfir.
Á síðustu árum höfum við verið að forgangsraða fjármunum og áherslum í þágu starfs- og tæknináms og séð verulega aukningu í aðsókn víða, eins og til að mynda rafiðn, húsasmíði, pípulögnum og fleiri greinum. Jafnframt sjáum við fram á aukna innviðafjárfestingu í uppbyggingu í skólunum okkar ásamt því að starfs- og tækniskólarnir hafa verið að fjárfesta í nýjum tækjum og búnaði. Þetta er fagnaðarefni.
Við viljum fylgja enn frekar eftir þessari sókn sem við sjáum. Við boðum aðgerðir sem eru til framtíðar og til þess fallnar að auka færni í samfélaginu okkar. Við ætlum að efla verk-, tækni og listgreinakennslu í grunnskólum. Við viljum veita ungu fólki og foreldrum betri innsýn í starfs- og tækninám á framhaldsskólastigi og hvaða möguleika og tækifæri slíkt nám veitir til framtíðarstarfa. Jafnframt ætlum við að jafna aðgengi framhaldsskólanema að háskólum, svo dæmi séu nefnd. Við ætlum að vinna að því að einfalda skipulag starfs- og tæknináms, svo að námið verði í auknum mæli á ábyrgð skóla frá innritun til útskriftar. Jafnframt þarf að auka fyrirsjáanleika í starfsnámi á vinnustað og að það verði án hindrana.
Breytingar verða aðeins gerðar ef margir taka höndum saman. Slíkt samstarf er nú í burðarliðnum, þar sem lykilaðilar hafa sammælst um markvissar aðgerðir til að fjölga starfs- og tæknimenntuðum á vinnumarkaði. Nú verður farið í enn markvissari aðgerðir til að efla starfs- og verknám til að auka færni í samfélaginu okkar.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtst fyrst í Morgunblaðinu 25. febrúar 2020.