Framhaldsskólar hafa starfað með óhefðbundnu sniði frá því samkomutakmarkanir voru fyrst boðaðar í mars. Fjölbreytni skólanna kristallast í áskorunum sem skólastjórnendur, kennarar og nemendur mæta á hverjum stað, allt eftir því hvort um bók- eða verknámsskóla er að ræða, fjölbrautaskóla eða menntaskóla með bekkjakerfi. Aðstæður eru mismunandi, en í grófum dráttum hefur verklegt nám farið fram í staðkennslu en bóklegt nám almennt í formi fjarkennslu. Margir skólanna hafa breytt námsmati sínu, með aukinni áherslu á símat en minna vægi lokaprófa, og sýnt mikla aðlögunarhæfni. Með henni hefur tekist að tryggja menntun og halda nemendum við efnið, þótt aðstæður séu svo sannarlega óhefðbundnar.
Allt frá því að faraldurinn braust út hef ég verið í miklum samskiptum við skólastjórnendur, fulltrúa kennara og ekki síst framhaldsskólanema. Af samtölum við nemendur má ráða að þeirra heitasta ósk sé að komast í skólann sinn og efla sinn vitsmuna- og félagsþroska samhliða náminu. Hér skal tekið fram, að margir hafa náð góðum tökum á fjarnáminu og því ekki farið á mis við námsefnið sjálft, en félagslega hliðin hefur visnað og núverandi fyrirkomulag er að mínu mati ekki sjálfbært. Það tekur hressilegan taktinn úr daglegu lífi unga fólksins, eykur líkurnar á félagslegri einangrun, andlegri vanlíðan og skapar jafnvel spennu í samskiptum þeirra við foreldra.
Sóttvarnareglur veita skólastjórnendum lítið svigrúm, en við ætlum að nýta tímann vel og lenda hlaupandi um leið og tækifæri gefst til aukins staðnáms. Í því samhengi höfum við skoðað ýmsar leiðir, fundað með landlækni og sóttvarnalækni um horfur og mögulegar lausnir, kannað hvort leiga á viðbótarhúsnæði myndi nýtast skólunum – t.d. ráðstefnusalir, kvikmynda- og íþróttahús sem nú standa tóm – og hvernig megi tryggja stöðugleika í skólastarfinu óháð Covid-sveiflum í samfélaginu. Þeirri vinnu ætlum við að hraða og styðja skólastjórnendur með ráðum og dáð. Öllum hugvekjandi tillögum má velta upp, hvort sem þær snúa að tvísetningu framhaldsskólanna, vaktafyrirkomulagi í kennslu eða nýtingu grunnskólahúsnæðis sem er vannýtt hluta dagsins.
Í gömlu lagi segir að fátt sé svo með öllu illt að ei boði gott – að finna megi út úr öllu ánægjuvott. Þannig sýna mælingar framhaldsskólanna að brotthvarf sé minna nú en oft áður. Að verkefnaskil og undirbúningur fyrir próf gangi vel. Að nemendur sem ekki komast úr húsi sofi meira og hvílist betur en félagslyndir framhaldsskólanemar gera að öllu jöfnu. Slíkar fréttir eru góðar en breyta ekki þeirri staðreynd að félagsstarf og samskipti við aðra er órjúfanlegur þáttur í góðri menntun.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins. – liljaa@althingi.is
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 7. nóvember 2020.