Tónlistarlíf hér á landi er öflugt og frjótt. Íslensk tónlist hefur átt drjúgan þátt í að auka orðspor Íslands á alþjóðavettvangi enda finnur íslensk menning og sköpunarkraftur sér farveg um allan heim. Velgengni íslenskrar tónlistar og tónlistarmanna hefur þó ekki sprottið úr engu. Þar eigum við tónlistarkennurum og starfsfólki tónlistarskóla landsins margt að þakka. Fólki sem hefur metnað, trú og ástríðu fyrir sínu fagi og sívaxandi möguleikum menntunar á því sviði, og ber öflugu starfi tónlistarskólanna fagurt vitni.
Starfsemi flestra tónlistarskóla er samstarfsverkefni ríkis og sveitarfélaga en í gildi er samkomulag um greiðslu framlags ríkisins til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga vegna þess. Nemendur í framhaldsnámi í hljóðfæraleik og á framhalds- og miðstigi í söng, og aðrir nemendur sem þurfa af gildum ástæðum að sækja tónlistarskóla utan lögheimilis sveitarfélags, njóta stuðnings samkvæmt ákveðnum reglum. Á þessu ári nær samkomulagið til tæplega 600 nemenda í 35 tónlistarskólum og nema framlögin rúmlega 550 milljónum kr. eða um 935.000 kr. á hvern nemanda. Samkomulagið var endurnýjað í lok síðasta árs og gildir til ársloka 2021.
Með tilkomu Menntaskólans í tónlist árið 2017 fækkaði nemendum sem samkomulagið nær yfir en ákvörðun var tekin að lækka þó ekki framlög til þess. Með þeirri aðgerð varð því umtalsverð hækkun á framlagi til hvers nemenda. Framlög til Menntaskólans í tónlist nema 390 milljónum kr. á þessu ári. Því má segja að fjármögnun tónlistarkennslu hér á landi hafi sjaldan verið betri en nú.
Framundan eru mikilvæg verkefni sem unnin verða í góðri samvinnu við hagaðila. Ráðgert er að endurskoða lagaumhverfi tónlistarskóla og aðalnámskrá þeirra sem ekki hefur enn verið uppfærð í takt við gildandi aðalnámskrár grunn- og framhaldsskóla. Þá verður einnig metið hvort ástæða sé til að setja heildstæð lög um listkennslu hér á landi. Við treystum á gott samstarf um þau mikilvægu verkefni sem verða án efa til þess að efla enn frekar tónlistarfræðslu og starf tónlistarskóla hér á landi.
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 3. október 2019.