Þegar líður á sumar verður maður alltaf þakklátari og þakklátari fyrir hvern bjartan sumardag sem okkur er gefinn. Þeir hafa verið margir góðir í sumar, líklega þó helst fyrir austan og norðan þaðan sem sólbrúnar og sælar myndir hafa flætt um samfélagsmiðla. Eftir heyskap breytist takturinn og eftirvæntingin eftir göngum og réttum tekur völdin. Síðasta haust var réttarstemningin önnur, enda hefur veiran lagst illa á hefðbundna viðburði og samkomur frá því hún heimsótti okkur fyrir einu og hálfu ári síðan.
Við verðum að líta til framtíðar, enda uppskeruhátíð lýðræðisins í vændum þar sem kosið verður um verk okkar sem störfum í stjórnmálum og þá ekki síður þá framtíðarsýn sem við höfum upp á að bjóða. Ég lít stoltur yfir síðustu ár á þau mál sem við í Framsókn höfum látið verða að veruleika. Eins og margir hafa orðið varir við þá hefur aldrei verið jafnmikill kraftur í uppbyggingu í samgöngum eins og nú. Mikilvægt er að sá kraftur haldi áfram á næstu árum því af nógu er að taka, bæði í nýjum vegum, höfnum og í viðhaldi á öllum sviðum. Ísland ljóstengt, ljós í fjós, er verkefni sem klárast á þessu ári og við tekur nýtt metnaðarfullt verkefni: Ísland fulltengt, átak í því að ljúka við ljósleiðaravæðingu þéttbýliskjarnanna út um landið. Samgöngur og fjarskipti eru stór byggðamál eins og við þekkjum öll sem búum utan höfuðborgarsvæðisins.
Þau eru mörg og brýn verkefnin sem þarf að vinna að í landbúnaði á næstu árum. Við í Framsókn höfum lagt áherslu á að nýsköpun í matvælaframleiðslu og landnýtingu verði stórefld. Það er mikill kraftur í greininni þrátt fyrir að umræður lendi alltof oft í skotgröfunum. Þær skotgrafir þarf að moka ofan í því þær eru beinlínis skaðlegar greininni.
Bændur hafa um aldir verið vörslumenn landsins. Þeir taka ástand landsins og heimsins alvarlega enda eru uppsprettur lífsins að mörgu leyti í þeirra höndum því ekki vaxa lærissneiðarnar í kjötborðum stórmarkaðanna. Íslenskur landbúnaður hefur algjöra sérstöðu þegar kemur að heilnæmi og sýklalyfjagjöf. Þá sérstöðu verður að vernda og einnig nýta við markaðssókn erlendis.
Þau málefni landbúnaðar sem við í Framsókn setjum á oddinn í kosningabaráttunni eru einkum:
- Að landnýting og ræktun sjá sjálfbær.
- Að nýsköpun í matvælaframleiðslu og landnýtingu verði stórefld.
- Að stuðningur verði aukinn til að stuðla að fjölbreyttri ræktun og landnýtingu og kolefnisbindingu.
- Að frumframleiðendum verði heimilað samstarf eins og þekkist í öllum löndum Evrópu.
- Að afurðastöðvum í kjöti verði heimilað samstarf með sambærilegum hætti og í mjólkurframleiðslu.
- Að Bændum verði heimiluð slátrun og vinnsla að undangengnu áhættumati og kennslu.
- Að tollasamningi við ESB verði sagt upp og hann endurnýjaður vegna forsendubrests, til dæmis vegna útgöngu Breta úr sambandinu.
- Að tollaeftirlit verði hert til muna og gert sambærilegt því sem þekkist í samanburðarlöndum okkar.
- Að stofnað verði nýtt ráðuneyti landbúnaðar og matvæla þar sem málefni skógræktar, landgræðslu og eftirlitsstofnana matvæla og landbúnaðar verða undir.
Ég vona að þú lesandi góður njótir þess sem lifir af sumri og haustsins með öllum sínum fallegu litum og ferskleika í lofti. Og minni um leið á það að framtíðin ræðst á miðjunni.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.
Greinin birtist fyrst í Bændablaðinu 20. ágúst 2021.