Í gær fögnuðu Íslendingar þjóðhátíðardeginum. Við gleðjumst saman á ári hverju hinn 17. júní og heiðrum þá sem börðust fyrir sjálfstæði Íslands. Við erum stolt af því að hafa öðlast sjálfstæði og vera þjóð meðal þjóða.
En hvað gerir þjóð að þjóð? Algeng skilgreining á þjóð er þegar hópur fólks uppfyllir ákveðin skilyrði, þ.e. deilir sameiginlegri sögu, menningu, þjóðarvitund og síðast en ekki síst sameiginlegu tungumáli. Þjóð þarf ekki endilega að deila sameiginlegu landsvæði. Við Íslendingar erum vissulega, sem eyríki, landfræðilega afmörkuð þjóð en íslenskan er samt sem áður meðal þess sem gerir íslensku þjóðina að þjóð. Okkur ber því að standa vörð um tungumálið okkar því íslenskan er ekki einungis hluti af okkar daglega lífi, heldur varðveitir tungumálið sögu okkar og menningararf. „Tungan geymir sjóð minninganna,“ sagði frú Vígdís Finnbogadóttir í sinni fyrstu ræðu sem forseti íslenska lýðveldisins hinn 1. ágúst árið 1980 og það eru mikil sannindi fólgin í þeim orðum.
Í því alþjóðlega umhverfi sem við búum við í dag verður sífellt mikilvægara að standa vörð um íslenskuna – okkar dýrasta arf. Að tryggja varanleika hennar verður aðeins gert með markvissum aðgerðum. Grunnurinn er auðvitað góð íslenskukennsla í skólum landsins, aðgengi og stuðningur að bókum á íslensku og öðru afþreyingarefni. Kvikmyndir og tölvuleikir eru yfirleitt á ensku. Vissulega hjálpar slíkt efni mikið við að læra ensku en það reynist oft vera á kostnað íslenskunnar.
Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra hefur lagt áherslu á fjölmargar aðgerðir í sinni ráðherratíð sem beinast að varðveislu tungumálsins. Ráðherra hefur t.a.m. lagt áherslu á að gera íslensku að gjaldgengu tungumáli í stafrænum heimi þar sem til dæmis gervigreind og raddstýrð tæki spila stór hlutverk í lífi fólks. Sjálfseignarstofnunin Almannarómur og SÍM – samstarfshópur um íslenska máltækni hafa leitt vinnu á þeim vettvangi, undir forystu ráðherra. Fyrstu áfangar þess verkefnis fela í sér gagnasöfnun en síðan verður smíðaður hugbúnaður með stoðtólum fyrir máltækni, vélrænar þýðingar, málrýni, talgreini og talgervil.
Þá má nefna nýleg samskipti menntamálaráðherra við afþreyingarrisann Disney um útgáfu myndefnis gegnum Disney plús. Í kjölfar samskipta ráðherra við fyrirtækið hefur Disney tryggt íslenska textun og/eða talsetningu á fleiri en 600 myndum eða þáttum á Disney+. Meðal þeirra eru Star Wars-myndirnar og Marvel-myndirnar, sem eru vinsælar meðal allra aldurshópa.
Það eru einmitt svona hlutir, svona dugnaður og frumkvæði, sem eiga þátt í varðveislu tungumálsins.
Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 18. júní 2021.