Categories
Greinar

Opinber störf á landsbyggðinni

Deila grein

22/05/2020

Opinber störf á landsbyggðinni

Varnir, vernd og viðspyrna er yfirskrift á aðgerðaáætlun stjórnvalda við þeirri stöðu sem við stöndum frammi fyrir. Það er mikilvægt hverju samfélagi að halda uppi þéttu og fjölbreyttu atvinnulífi. Það er svo sannlega tími til að virkja þann mikla mannauð sem býr í landsmönnum. Við höfum allt til staðar, viljann, mannauðinn og tæknina. Samgöngur fara batnandi og með allt þetta að vopni náum við viðspyrnu um allt land.

Við erum að stefna inn í þyngra efnahagsástand með tilheyrandi uppsögnum og samdrætti á mörgum sviðum vegna COVID-19. Þá hefst slagurinn um að verja störfin. Verja og halda þeim opinberu störfum sem nú þegar eru á landsbyggðinni. Þar þurfa allir að leggjast á eitt. Það hefur því miður verið raunin að fyrir eitt starf sem glatast tekur það 10 ár að fá annað til baka. Það getur líka verið hluti af hagræðingu að verja þau störf sem fyrir eru og hluti af viðspyrnunni að leggja enn meiri áherslu á að skilgreina störf án staðsetningar og dreifa þeim sem best.

Störf án staðsetningar

Opinber störf á vegum ríkisins eru rúm 20.000. Þá eru ekki meðtalin þau störf sem eru á vegum sveitarfélaga. Hér á landi er skipting opinberra útgjalda milli ríkis og sveitarfélaga 70/30. Það er því ljóst að staðsetning ríkisstarfa skiptir miklu máli og ætti það að vera forgangsmál stjórnvalda að dreifa þeim sem mest um landið. Í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar er að finna áherslu hennar um að skilgreina störf og auglýsa þau án staðsetningar eins og kostur er. Auk þess styður samþykkt byggðaáætlun við þetta markmið. Með aukinni samskiptatækni, háhraðafjarskiptatengingum um allt land ásamt greiðum samgöngum er nú hægt að dreifa opinberum störfum sem aldrei fyrr. Þeir tímar sem við höfum gengið í gegnum á undanförnum vikum hafa sýnt að fjarvinna er ekki bara draumsýn, heldur raunverulegur möguleiki. Störf án staðsetningar geta verið jafn vel unnin í Ármúla í Reykjavík og á Hólmavík.

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á bb.is 18. maí 2020.