Categories
Fréttir

Stafrænt kynferðisofbeldi stærsta áskorunin – löggjöfin hefur ekki að geyma vernd

Deila grein

22/05/2020

Stafrænt kynferðisofbeldi stærsta áskorunin – löggjöfin hefur ekki að geyma vernd

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, bar upp fyrirspurn á Alþingi í vikunni um aðgerðir gegn stafrænu kynferðisofbeldi. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs segir að stefnt skuli að gerð áætlunar um að útrýma kynbundnu ofbeldi, ekki síst stafrænu kynferðisofbeldi. Stýrihópi forsætisráðherra um heildstæðar úrbætur varðandi kynferðislegt ofbeldi hefur verið falið að móta stefnu gegn stafrænu kynferðisofbeldi og er sú vinna grundvölluð á skýrslu frá því í janúar á þessu ári er forsætisráðuneytið gaf út.

„Mér leikur forvitni á að vita hvernig vinnunni í heild miðar og lagði ég því fram fyrirspurn í febrúar um framvindu málsins en aðgerðir gegn stafrænu kynferðisofbeldi eru enn jafn mikilvægar og þær voru þá og því gott að fara yfir þær nú,“ sagði Líneik Anna.
„Breyting á daglegum samskiptum fólks hefur verið mikil enda hafa stafræn samskipti aukist ár frá ári. Það hefur skapað nýjar áskoranir í daglegu lífi á mörgum sviðum. Breytingin hefur kallað á breytingar á umgjörð og lagaumgjörð á samskiptum einstaklinga, s.s. persónuvernd. Mörgum finnst þá lagaumhverfið ekki ná að fylgja þróuninni í notkun tækninnar eftir, en fræðimenn hafa bent á andvaraleysi á hvers konar stafrænu kynferðisofbeldi geta haft mjög alvarlegar afleiðingar, til skemmri og lengri tíma, og ekki síst í litlum samfélögum eins og á Íslandi eins og í stærri samfélögum. Ofbeldi getur eins og annað ofbeldi dregið úr lífsgæðum þeirra sem fyrir verða, valdið hvort tveggja andlegum og líkamlegum veikindum, s.s. kvíða og óútskýrðum verkjum,“ sagði Líneik Anna.
Líneik Anna sagði það hafa reynst erfitt að kortleggja umfang stafræns kynferðisbrota heildstætt m.a. vegna þess að löggjöfin hafi ekki að geyma vernd um stafræna kynhelgi. Þá hafi samnorræn úttekt sýnt fram á brotaþolar hafi ekki talið borga sig að leita réttar síns vegna þessa á Íslandi.
Líneik Anna spurði (i) hvað liði heildar stefnumótun um aðgerðir gegn stafrænu kynferðisofbeldi, (ii) hvort hugað væri að lagabreytingum til að styrkja stöðu þolenda slíkra brota og (iii) með hvaða hætti mætti stuðla að vitundarvakningu gegn stafrænu kynferðisofbeldi.
Forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, var til andsvara og sagði stafrænt kynferðisofbeldi vera eina stærstu áskorunina er Íslendingar stæðu frammi fyrir til að koma á fullu jafnrétti kynjanna. Benti Katrín á að samkvæmt heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, um „jafnrétti kynjanna“, þá sé það það markmið er þjóðir heims eigi enn hvað lengst í land með að ná. Kynferðisofbeldi er þar stærsta hindrunin í að fullt jafnrétti komist á. Sagði hún að lagasetning ætti að fylgja eftir með þríþættum stefnumarkmiðum:

  • forvarnir og fræðsla
  • úrbætur á meðferð mála í réttarvörslukerfinu
  • aukinn stuðningur við þolendur brota

Dómsmálaráðherra hefur verið falið það verkefni að ráðast í smíði löggjafar og lagaframkvæmdar og sagðist forsætisráðherra vænta þess að þingmálaskrá dómsmálaráðherra í haust muni innihalda drög að nýrri löggjöf.

***

  1. Drög að aðgerðaáætluninni er unnin með hliðsjón af alþjóðlegum skuldbindingum Íslands. Sérstaklega hefur verið tekið mið af skyldum stjórnvalda í tengslum við samning Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi á konum og heimilisofbeldi (Istanbúl-samningurinn), samning Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum (CEDAW), samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og samning Evrópuráðsins um vernd barna gegn kynferðislegri misneytingu og kynferðislegri misnotkun (Lanzarote-samningurinn). Tillagan tekur jafnframt mið af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun þar sem meðal annars kemur fram að stuðla skuli að friðsælum og sjálfbærum samfélögum fyrir alla, tryggja öllum jafnan aðgang að réttarkerfi og byggja upp skilvirkar og ábyrgar stofnanir á öllum sviðum.
  2. Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun voru samþykkt af fulltrúum allra aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna í september árið 2015. Markmiðin, sem gilda á tímabilinu 2016-2030, eru 17 talsins með 169 undirmarkmið og taka bæði til innanlandsmála sem og alþjóðasamstarfs á gildistímanum. Aðalsmerki heimsmarkmiðanna er að þau eru algild og því hafa aðildarríkin skuldbundið sig til þess að vinna skipulega að innleiðingu markmiðanna bæði á innlendum og erlendum vettvangi út gildistíma þeirra.Heimsmarkmiðin eru samþætt og órjúfanleg og mynda jafnvægi milli þriggja stoða sjálfbærrar þróunar; hinnar efnahagslegu, félagslegu og umhverfislegu. Þá fela þau einnig í sér fimm meginþemu sem eru mannkynið, jörðin, hagsæld, friður og samstarf. Aðalinntak markmiðanna er jafnframt að engir einstaklingar eða hópar verði skildir eftir. Því er mikilvægt að ríki horfi ekki eingöngu til meðaltala við mælingar á árangri sínum heldur nálgist innleiðingu markmiðanna á heildstæðan hátt. Heimsmarkmiðin eru margþætt og metnaðarfull og krefjast skipulagðrar vinnu af hálfu stjórnvalda en einnig þátttöku og samstarfs ólíkra hagsmunaaðila. Þá eru innri tengsl og samþætt eðli markmiðanna afar þýðingarmikil fyrir framkvæmd þeirra. Óhætt er að fullyrða að ef þjóðum heims tekst að ná markmiðunum innan gildistíma áætlunarinnar þá mun líf allra og umhverfi hafa batnað til mikilla muna árið 2030.